Fréttir

Skrautlegur hringur hjá Palmer
Ryan Palmer.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 8. janúar 2021 kl. 18:46

Skrautlegur hringur hjá Palmer

Annar hringur fyrsta móts ársins, Sentry Tournament of Champions, á PGA mótaröðinni er farinn af stað og eru efstu menn sem stendur á 10 höggum undir pari. Ekki hafa allir kylfingar hafið leik en síðustu menn hefja leik á næstu mínútum.

Einn af efstu mönnum eftir fyrsta hringinn var Bandaríkjamaðurinn Ryan Palmer en hann kom í hús á 67 höggum, eða sex höggum undir pari. Það skilaði honum í þriðja sætið ásamt fleiri kylfingum.

Það eitt og sér er svo sem ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að byrjunin á hringnum hjá Palmer var ekki góð. Hann var kominn á þrjú högg yfir par eftir fjórar holur eftir skolla á annari holunni og tvöfaldan skolla á þeirri fjórðu. Hann náði þá að snúa blaðinu við og lék næstu 14 holur á níu höggum undir pari, þar sem hann fékk tvo erni og fimm fugla. 

Hann endaði því eins og áður sagði á sex höggum undir pari og er á meðal efstu manna.