Fréttir

Smith vorkennir Reed ekki neitt
Cameron Smith.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 10. desember 2019 kl. 09:30

Smith vorkennir Reed ekki neitt

Eins og Kylfingur greindi frá um síðustu helgi fékk Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed tvö högg í víti þegar hann gerðist sekur um að bæta legu sína viljandi í sandi á Hero World Challenge mótinu á PGA mótaröðinni.

Atvikið, sem náðist á myndband, sýnir Reed leggja kylfuna tvisvar fyrir aftan boltann og í báðum tilfellum fer töluvert af sandi upp með kylfunni.

Eftir hringinn sagði Reed að sjónarhorn myndavélarinnar hefði mögulega aðeins ýkt þessa tilburði hans og að hann hefði ekki ætlað sér að gera þetta.

Fjölmargir hafa tjáð sig um þetta mál og er einn þeirra Ástralinn Cameron Smith sem mætir með Alþjóðaliðinu í Forsetabikarinn sem hefst í vikunni.

Smith sparaði ekki stóru orðin þegar hann var spurður um atvikið.

„Ef þú gerir mistök kannski einu sinni, þá getur maður mögulega skilið það en að gefa svona fáránleg svör eins og með sjónarhorn myndavélarinnar.. það er kjánalegt,“ sagði Smith við blaðamenn í Ástralíu.

„Ég vorkenni ekki neinum sem svindlar. Ég vona að áhorfendur láti ekki bara hann heldur alla [í bandaríska liðinu] finna fyrir því í næstu viku.

Ég þekki Pat nokkuð vel og hann hefur alltaf verið indæll við mig þannig að ég vil ekki segja neitt slæmt um hann, en allir sem svindla, ég sætti mig ekki við það.“

Rætt var um málið á Golf Channel: