Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Snorri vinnur með tvöföldum Masters meistara
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 16:15

Snorri vinnur með tvöföldum Masters meistara

„Það er nú aldrei að vita nema maður nái að sannfæra Olazábal um að ferðast til Íslands þegar Covid er gengið yfir og spila smá golf. Það ætti nú ekki að vera erfitt með svona marga fína velli og miðnætursólina á Íslandi,“ segir Snorri Vilhjálmsson, golfvallaarkitekt en hann starfar með spænsku golfstjörnunni José Maria Olazábal við hönnunarfyrirtæki hans.

Olazábal er einn af sigursælustu kylfingum Evrópu og á magnaðan feril að baki. Hann hefur tvívegis sigrað á Masters (1994 og 1998), á 21 sigur að baki á Evrópumótaröðinni og 4 aðra titla á PGA mótaröðinni. Þá lék hann 7 sinnum í Ryderliði Evrópu og með Seve Ballesteros voru þeir tvíeyki sem tapaði nánast aldrei. Sigruðu í 15 leikjum, gerðu tvö jafntefli og töpuðu aðeins tvisvar í fjórum Ryder keppnum. 

Ráðinn til Olazabal Design

Það þykir því til tíðinda þegar Íslendingur starfar náið með stórstjörnu eins og Olazábal. En hvað er að frétta af golfvallahönnuðinum Snorra Vilhjálmssyni? 

Ég er bara nokkuð hress og jákvæður þrátt fyrir skrýtna tíma núna í Covid. Þó það sé lítið um ferðalög er nóg að gera vinnunni og heima með lítinn son sem kom í heiminn í vor.

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa með Spánverjanum José Maria Olazábal við golfvallahönnun? 

Ég var búinn að vera aðstoða hönnunardeildina hans í nokkurn tíma, fyrst í gegnum Golf & Land Design þar sem ég starfaði síðasta áratuginn hér í Austurríki. Við aðstoðuðum þá við hönnun, ráðgjöf og tækniteikningar.

Olazabal Design var svo í fyrra boðið að taka þátt í tveimur stórum hönnunar samkeppnum og leituðu til mín. Verkefnin voru endurhönnun á velli á Spáni og nýr völlur í Saudi Arabíu. Þegar Olazabal Design vann svo báðar keppnirnar var ljóst að þeir þurftu á mannskap að halda og réðu mig í fullt starf í byrjun árs. 

Og þið voruð að fá alvöru viðurkenningu? 

Golfvellirnir hans Olazábal hafa fengið góða gagnrýni í gegnum árin og í ár fékk Education City golfvöllurinn okkar 3 tilnefningar hjá World Golf Awards, þetta er nýr völlur í Qatar þar sem Evróputúrinn spilaði núna í sumar.

Navarino Hills í Grikklandi vann sem „World‘s Best New Golf Development“ þar erum við að gera tvo nýja velli.

José  var svo valinn golfvallaarkitekt ársins hjá World Golf Awards og við hjá Olazabal Design erum mjög stoltir af þeim titli.

Hvað geturðu sagt okkur um námið þitt og síðan störf hér heima? 

Ég fór út til Skotlands og tók meistaragráðu í golfvallaarkitektúr, það var eftir að hafa lokið B.Sc. í tölvunarfræði frá HÍ. 

Námið í Skotlandi var nýtt af nálinni þar sem golfvallahönnun var hvergi kennd sem eigið fag, flestir hönnuðir voru landslagsarkitektar eða álíka og söfnuðu reynslu með því að vinna við fagið. European Institute of Golf Course Architects (EIGCA), sem er evrópustofnun golfvallahönnuða setti fyrst á laggirnar fjarnám þar sem nemendur hittust reglulega í mismunandi löndum sem þróaðist í fullt  nám í Edinborgarháskóla.

Frábært í Skotlandi

Snorri segir að tíminn í Skotlandi hafi verið frábær.
Bæði var námið skemmtilegt með fjölbreyttum alþjóðlegum hópi af nemendum og maður gat spilað bestu strandvelli í heimi í frítímanum. Eftir að hafa lokið náminu fékk ég starf hjá enskum hönnuði Howard Swan og þaðan fór ég til Austurríkis að vinna fyrir Hans-Georg Erhardt hjá Golf & Land Design. Ég hef verið alla tíð síðan að vinna frá Austurríki og geri það enn fyrir Olazabal Design. 

Hvað með verkefni á Íslandi?

Á Íslandi hef ég verið að aðstoða GKG. Níu holu völlurinn þeirra fer að hluta undir framkvæmdir við nýja íþróttahúsið og nýr völlur kemur þá austan við Leirdalsvöllinn. Álftanesið er einnig að leggja land undir nýjan 9 holu golfvöll í nágrenni við Bessastaði. Skipulagsbreytingar hafa verið í kynningu í haust og fara þessi verk vonandi í framkvæmdir fljótlega. 

Hvernig er þessi heimur þessa dagana? Er nóg að gera í golfvallahönnun? 

Maður sá það eftir efnahagskrísuna að stærri fyrirtækin og vel þekktu nöfnin lifðu það af. Það er auðvitað ekki einfalt að reka fyrirtæki þar sem hvert verk er frekar stórt í sniðum og þarf þá mannskap og tíma í þau, en þegar eitt eða fleiri verkefni detta út eða frestast þá þarf samt að halda rekstrinum gangandi. Sem betur fer er allavega  meira en nóg að gera hjá okkur. Verkefnin í Grikklandi eru í framkvæmd, einn völlur í Saudi Arabíu er nýbyrjaður í framkvæmd og ég var að klára drög að öðrum velli í sama landi. Svo erum við að hanna í Víetnam, á Spáni og aðstoða við endurbætur á tveimur völlum í Austurríki. Ég er svo að vinna við nýjan völl í Portúgal sem á að fara í framkvæmd á næsta ári.

Er ekki alltof mikið af golfvöllum í heiminum? 

Eins og hver önnur vara fylgir framboðið eftirspurn. Það eru lönd sem eru vel mettuð eins og Mið–Evrópa og þar er meira af aðlögun og endurbyggingu á núverandi völlum. Samt eru lönd eins og Króatía þar sem þörf er á golfvöllum, þar eru fáeinir vellir en möguleikarnir góðir og gæti landið hagnast á vetrar-túrisma. Misskilningur að golfvellir séu skaðlegir umhverfinu

Hvað er það sem golfvallahönnuðir þurfa að hafa efst í huga núna þegar golfvöllur er hannaður? Hafa ekki orðið breytingar á undanförnu í ljósi þróunar í umhverfismálum? 

Það virðist vera smá misskilningur að golfvellir séu svakalega skaðlegir umhverfinu og golfvallastarfsmenn stundi það til gamans að sprauta eiturefnum yfir allt, því annars gæti þetta ekki verið svona grænt og fallegt. Þetta eru auðvitað fjarri sannleikanum. Í fyrsta lagi eru umhverfisreglur  sem þarf að fylgja og menntun og meðvitund starfsmanna golfvalla að hafa völlinn sem umhverfisvænstan svo völlurinn í raun bætir og styður umhverfið og dýralífið.

Við hönnunina er raunin einnig sú að við fáum venjulega ekki besta landið undir golfvelli, það er okkar að bæta landið, gera það náttúrulegra með því að nýta það góða og sjá til þess að hægt sé að byggja og viðhalda vellinum á sjálfbæran hátt. 

Það er öllum í hag að völlurinn falli vel að landinu og virki sem náttúrulegastur. Í Evrópu virðist þetta vera aðeins meðvitaðra en aðrar heimsálfur eru að fylgja eftir. Það virðist samt oft að þau lönd sem eru að stíga sín fyrstu skref þurfa stundum að læra það af eigin raun, að vökva allt og viðhalda stendur ekki undir kostnaði svo það er í lagi að leyfa náttúrunni að taka yfir sum svæði sem eru ekki í leik.

Hver eru markmiðin hjá þér í dag? 

Halda áfram að vera jákvæður og njóta þess sem ég er að gera. Auðvitað eru þetta erfiðir tímar að geta ekki komið oftar til Íslands og hitt fjölskylduna eða fengið þau í heimsókn. Það væri einnig gagnlegt að geta ferðast meira útaf vinnuni en maður gerir það besta úr þessu, segir Snorri Vilhjálmsson.

http://www.olazabaldesign.com/

Education City golfvöllurinn í Doha í Qatar er hannað af Olazabal Design.Przytok golfvallarsvæðið í Póllandi sem Snorri vann við hönnun á.

Costa Navarino Navarino Hills völlurinn er hönnun frá Olazabal Design.