Fréttir

Spilaði á Sawgrass og fer í háskólagolfið að ári
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 10. september 2023 kl. 07:00

Spilaði á Sawgrass og fer í háskólagolfið að ári

Ákvað að byrja í golfi þegar hann var á EM í Frakklandi. Hefur æft púttin með pabba sínum í bakgarðinum.

Gunnlaugur Árni Sveinsson er á meðal efnilegustu kylfinga landsins. Hann tók þátt í einu virtasta unglingamóti í heimi á Sawgrass vellinum í Florida á dögunum en fimmta risamótið eins og það er oft kallað, The Players championship fer alltaf fram á vellinum. Gunnlaugur útskrifast úr framhaldsskóla næsta vor og heldur svo á vit ævintýranna næsta haust, fer þá til Bandaríkjanna í háskólagolfið.

Gunnlaugur byrjaði frekar seint í golfi. „Þegar ég var yngri hafði ég engan áhuga á golfi, ég æfði fótbolta og körfu en fór stundum með pabba á golfvöllinn, hann var eitthvað að reyna láta mig fá áhuga. Það var ekki fyrr en 2016 þegar við fjölskyldan fórum á EM í Frakklandi, að eitthvað gerðist. Ég veit ekki hvað það var, allt í einu langaði mig að prófa og fór í raun ekki á fullt í golf fyrr en árið eftir, 2017 þegar ég var á tólfta ári. Pabbi hafði að mestu verið hættur í golfi en fékk aftur áhugann þegar ég fór á fullt og fljótlega var hann búinn að setja gervigraspúttflöt í garðinum og þar æfðum við okkur endalaust. Ég hef alltaf verið í GKG og þar hef ég getað æft undir stjórn frábærra þjálfara eins og Hauks Más Ólafssonar og Derrick Moore. Ég náði strax góðum tökum á golfinu, æfði mig mikið og tók miklum framförum, varð svo Íslandsmeistari fjórtán ára og yngri árið 2019. Eftir það tók ég ákvörðun um að hætta í fótbolta og hætti svo í körfu stuttu seinna og hef einbeitt mér að golfinu af fullum krafti síðan.“

Segja má að Gunnlaugur sé búinn að setja þjálfun sína á annað stig undanfarin ár. „Í kringum 2020 byrjaði ég að æfa hjá Arnari Má Ólafssyni og Andrési Jón Davíðssyni  og upp frá því varð til þjálfarateymi má segja. Ég fór að vinna mikið með Gauta Grétarssyni sjúkraþjálfara og Sigmundi Einari Mássyni sem er fyrrum Íslandsmeistari en hann spáir mikið í tölfræði á bak við golfið. Þetta kallast Strokes gained og er samanburður við þá bestu á PGA mótaröðinni. Eftir hvern hring slæ ég höggin mín í Excelskjal og sé þá breiðan samanburð á öllu sem viðkemur hverju höggi og get þá betur séð hvað ég er að gera vel og hvað ég þurfi að bæta. Ég fór að læra meira inn á leikinn minn og bætti mig ennþá meira. Ég og þjálfarateymið settum upp gott plan og áætlun um hvernig við ætlum okkur að ná settum markmiðum en draumurinn er að gerast atvinnumaður í golfi. Ég er mjög þakklátur fyrir alla hjálpina sem ég hef fengið frá þeim sem hafa þjálfað mig og aðstoðað,“ segir Gunnlaugur.

Góður árangur Gunnlaugs á unglingamótum úti í heimi hefur vakið athygli og háskólar í Bandaríkjunum fóru að gefa honum gaum. „Ég átti mjög gott tímabilið árið 2021, rauk þá upp á heimslista áhugamanna og þá gerði ég mér grein fyrir hvar ég stóð. Ég tók svo þátt í móti í Miami þetta haust, á það mót koma margir þjálfarar frá háskólunum í Bandaríkjunum og þá byrjaðu þreifingar á fullu. Ég ráðfærði mig við Bjarka Péturs og Sigmund Einar, þeir voru báðir í háskólagolfinu og á endanum var ég kominn með þrjá skóla sem mér leist best á. Ég fór og heimsótti þá alla og fann strax í hvaða skóla ég vildi fara í, East Tennessee state. Aðalástæðan er að skólinn er með frábært golflið og það eru margir golfarar frá Evrópu sem eru í liðinu og þjálfarinn er Breti. Veðrið þarna er líka milt, ekki of heitt og heldur ekki kalt yfir veturinn. Ég mun búa með golfliðinu í íbúð á háskólasvæðinu og æfingasvæðið er þar rétt hjá. Þetta er ekki risastór skóli og held að muni henta mér vel. Ég ætla ekki síst að líta á þetta sem frábært tækifæri á góðri menntun, það að komast á svona styrk í háskóla í Bandaríkjunum er ígildi atvinnumennsku að mínu mati. Ég er að útskriftast af Viðskiptabraut í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og geri ráð fyrir að velja mér nám í samræmi við það.“

Gunnlaugi fannst gaman að spila Sawgrass völlinn. „Þetta mót heitir Junior Players Championship, þetta er boðsmót á vegum American Junior Golf Association en allir þeir bestu í Bandaríkjunum fá boð á mótið og við sem erum ofarlega a heimslista áhugamanna. Ég vissi að það yrði talsvert öðruvísi að spila í Florida út af hitanum, þetta eru allt aðrar aðstæður en ég er vanur og völlurinn var mjög krefjandi og erfiður, sömu teigar og eru á PGA mótaröðinni svo þetta var skemmtileg áskorun. Ég spilaði ekki mitt besta golf en tek hellings reynslu út úr þessu, hún mun nýtast mér þegar ég byrja í háskólagolfinu.

Nú ætla ég að einbeita mér að náminu, ég hef ekki getað sinnt því sem skyldi út af tíðum utanlandsferðum að undanförnu. Ég mun auðvitað eitthvað golfa hér á Íslandi, oft er hægt að spila vel inn í haustið en svo er bara að klára stúdentinn og undirbúa mig svo fyrir næsta kafla en ég mun leggja hart að mér í vetur með þjálfarateyminu mínu til að gera leikinn minn tilbúinn fyrir næsta sumar,“ sagði Gunnlaugur Árni að lokum.

Gunnlaugur með pabba sínum, Sveini Kristni Ögmundssyni.

Stiga- og Íslandsmeistari 15-16 ára.

Þungt hugsi ungur golfari.

Gunnlaugur að pútta í bakgarðinum heima hjá sér í Garðabæ.