Fréttir

Stefna á að leyfa áhorfendur á Masters
Dustin Johnson hefur titil að verja á Masters mótinu í ár.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 13. janúar 2021 kl. 10:22

Stefna á að leyfa áhorfendur á Masters

Augusta National golfklúbburinn tilkynnti á þriðjudaginn að klúbburinn stefndi að því að leyfa takmarkaðan fjölda áhorfenda á Masters mótinu á þessu ári. Engar ákveðnar tölur voru þó nefndar.

Í tilkynningunni sagðist klúbburinn ætla að nota svipaða heilsu- og öryggisstaðla og í nóvember þegar Masters mótið fór fram en þá þurftu keppendur og sjálfboðaliðar á staðnum að fara í Covid-19 próf, nota grímur og halda fjarlægð frá næsta manni. 

"Eftir vel heppnað Masters mót í nóvember í fyrra, þar sem einungis einungis nauðsynlegt starfsfólk var á svæðinu erum við fullviss um getu okkar til að bjóða takmörkuðum fjölda áhorfenda til Augusta National í apríl,“ sagði Fred Ridley, formaður Augusta National.

„Þó eru það vonbrigði að við getum ekki tekið á móti öllum þetta árið en við höldum áfram að eftir bestu getu að tryggja að allir þeir sem keyptu miða á mótið hafi aðgang árið 2022, að því gefnu að aðstæður batni.“

Masters mótið í ár fer fram dagana 8.-11. apríl, einungis fimm mánuðum eftir mótið í fyrra. Dustin Johnson hefur titil að verja eftir glæsilega spilamennsku í nóvember.