Styrktarmót fyrir Eygló Myrru á Urriðavelli
Næstkomandi sunnudag fer fram styrktarmót fyrir Eygló Myrru Óskarsdóttur á Urriðavelli. Í vetur mun Eygló Myrra stunda nám við Oklahoma State University og spila með golfliði skólans sem er eitt af sex bestu háskólaliðunum í Bandaríkjunum. Eygló Myrru hefur gengið vel í golfinu í sumar og er Íslandsmeistari unglinga 17-18 ára bæði í höggleik og holukeppni.
Leikin verður punktakeppni með forgjöf í karla- og kvennaflokki. Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Einnig verða veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg á 9. braut og nándarverðlaun á öllum par-3 holum ásamt því að dregið verður úr 10 skorkortum í mótslok.
Vinningarnir eru ekki á verri endanum en það eru meðal annars vörur frá Cintamani, Abacus, Innnes, Golfbúð Hafnafjarðar, Golfverslun Arnarins, Hole in One, Golfklúbbnum Oddi og Golfklúbbi Reykjavíkur.Þátttökugjald er kr. 3000 fyrir 9 holur.
Ræst verður frá kl. 8:00 til 18:30 og boðið verður upp á súpu og brauð í golfskálanum yfir daginn. Hægt er að skrá sig í mótið með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] eða í afgreiðslu Golfklúbbsins Odds fram að föstudegi en eftir það er hægt að skrá sig á hefðbundinn hátt á golf.is á rástíma dagsins.
Verðlaunaafhending verður kl. 21.30 og í lokin verður boðinn upp Driver R9 460 Taylormade að verðmæti 89.900. Driverinn vann Eygló Myrra fyrir lengsta teighögg kvenna í mótinu Berserkur 2009.
Að leika golf í fremstu röð og stunda nám við Oklahoma State University fylgir mikill kostnaður. Golfklúbburinn Oddur vill með þessu móti sýna Eygló Myrru stuðning og vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að styðja við bakið á einni efnilegustu golfkonu Íslands. Þeir sem sjá sér ekki fært um að mæta og vilja styrka Eygló Myrru geta lagt inn frjálst framlag á Reikning 1121-26-060712 kennitala 151091-3939.
Myndir/Kylfingur.is: Eygló Myrra Óskarsdóttir er á leiðinni í háskólanám til Bandaríkjanna.