Fréttir

Sveiflukenndur lokahringur Valdísar
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 8. desember 2019 kl. 12:10

Sveiflukenndur lokahringur Valdísar

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 77 höggum á lokadegi Magical Kenya Ladies Open mótsins sem fram fór í dag. Hún endaði mótið jöfn í 50. sæti en þetta var lokamót tímabilsins hjá Valdísi.

Hringurinn hjá Valdísi var mjög sveiflukenndur en eftir níu holur var hún á sex höggum yfir pari eftir að hafa fengið einn skolla, einn skramba og einn þrefaldan skolla. Á síðari níu holunum var allt annar bragur á Valdísi framan af. Hún var búinn að vinna þrjú högg til baka þegar hún kom á 18. holuna, þá fékk hún aftur á móti skramba og endaði síðari níu holurnar á einu höggi undir pari. Hringinn lék Valdís á 77 höggum, eða fimm höggum yfir pari, og endaði hún mótið á átta höggum yfir pari.

Fyrir mótið var Valdís í 71. sæti stigalistans og þarf hún að enda á meðal 70 efstu til að vera með fullan þátttökurétt á næsta ári. Stigalistinn verður uppfærður að loknu mótinu en það klárast síðar í dag.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.