Fréttir

Þórdís með mikla yfirburði á Akureyri
Sjöfaldur Íslandsmeistari 50 ára og eldri, Þórdís Geirsdóttir, stefnir hraðbyri að áttunda titlinum. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 15. júlí 2022 kl. 22:10

Þórdís með mikla yfirburði á Akureyri

Jón Karlsson leiðir í öllu jafnari keppni í karlaflokki

Þórdís Geirsdóttir úr GK er með mikla yfirburði í flokki 50 ára og eldri á Íslandsmóti eldri kylfinga sem stendur yfir á Jaðarsvelli Golfklúbbs Akureyrar. Þórdís er samtals á 9 höggum yfir pari og hefur 19 högga forskot á þær Ragnheiði Sigurðardóttur og Maríu Málfríði Guðnadóttur fyrir lokahringinn en þær koma báðar úr GKG. Þannig stefnir Þórdís hraðbyri að áttunda Íslandsmeistaratitli sínum í röð í flokki 50 ára og eldri.

Öllu jafnari keppni er í karlaflokki 50 ára og eldri en þar er það Jón Karlsson úr GR sem er á 6 höggum yfir pari með eins höggs forskot á Helga Anton Eiríksson úr GE, sem vann þennan titil árið 2020. Margfaldi Íslandsmeistarinn, Björgvin Sigurbergsson úr GK er ekki langt undan á 9 höggum yfir pari og ríkjandi Íslandsmeistari í flokki 50 ára og eldri, Sigurbjörn Þorgeirsson úr GFB er þá á 10 höggum yfir pari.

Í kvennaflokki 65 ára og eldri er það Elísabet Böðvarsdóttir úr GKG sem hefur sex högga forskot á Ágústu Dúu Jónsdóttur úr NK fyrir lokahringinn.

Þeir Sigurður Aðalsteinsson úr GSE og Hörður Sigurðsson úr GR deila forystunni í karlaflokki 65 ára og eldri á 19 höggum yfir pari en einu höggi á eftir þeim koma þeir Hlöðver Sigurgeir Guðnason úr GKG og Sæmundur Pálsson úr GR.

Staðan á mótinu