Fréttir

Tiger úr leik vegna meiðsla
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 9. ágúst 2019 kl. 17:29

Tiger úr leik vegna meiðsla

Tiger Woods er hættur keppni á Northern Trust mótinu sem fram fer á PGA mótaröðinni vegna meiðsla. Hann vonast þó til að geta mætt í næsta mót sem hefst eftir viku.

Woods, sem lék fyrsta hring mótsins á 4 höggum yfir pari, hefði átt að spila annan hring mótsins í dag en dró sig úr leik stuttu fyrir teigtímann. Ástæðan er sú að hann var farinn að finna fyrir eymslum og stífleika og var hann ekki í standi til að spila þrátt fyrir meðferð stuttu fyrir hring.

„Ég fór í meðferð snemma um morguninn en get því miður ekki spilað,“ sagði Woods. „Mig langar að þakka áhorfendum frá New Jersey og New York fyrir stuðninginn og er vongóður um að ég geti keppt á BMW meistaramótinu í næstu viku.“

Woods byrjaði FedEx úrslitakeppnina í 28. sæti stigalistans en fellur líklega um nokkur sæti eftir helgina. Ef það gerist gæti tímabilið hans verið búið en einungis 30 efstu á stigalistanum eftir BMW meistaramótið halda áfram á lokamótið, TOUR Championship, þar sem hann hefur titil að verja.