Tighe efstur í Ástralíu – Scott og Spieth jafnir
Það er heimamaðurinn Lincoln Tighe sem að leiðir eftir fyrsta hring á Opna Ástralska mótinu sem fram fer þessa vikuna hinum megin á hnettinum. Tighe lék á 66 höggum eða fimm höggum undir pari og hefur eins höggs forskot.
Næstu menn eru flestir heimamenn eins og Tighe en þar má helst nefna kappa á borð við Matt Jones, Geoff Ogilvy og John Sensen en þeir hafa allir leikið mikið á PGA mótaröðinni.
Lee Westwood er einnig meðal þátttakenda sem og bandaríski áhugamaðurinn Bryson DeChambeau. Báðir léku þeir fyrsta hring á 70 höggum eða einu höggi undir pari.
Mest athygli var þó á þeim Adam Scott og Jordan Spieth. Scott hafði sagt fyrir mótið að hann vonaðist eftir einvígi við Spieth um titilinn en hvorugur þeirra spilaði sitt besta golf.
Scott fékk þó mikið af fuglum en tveir skollar og tveir tvöfaldir skollar skemmdu fyrir honum. Hann kom í hús á 71 höggi eða á parinu.
Jordan Spieth átti ekki alveg jafn viðburðaríkan dag og Scott en hann fékk þrjá fugla og þrjá skolla og er því jafn Scott á parinu eftir fyrsta hring.
Það búast þó flestir við að þessir tveir bæti töluvert í næstu daga og blandi sér í toppbaráttuna.