Fréttir

Ungur GR-ingur í toppbaráttunni - er högglangur og góður púttari
Tómas á 17. flöt en hann hitti mjög margar flatir í tilskyldum höggafjölda. kylfngsmyndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 6. ágúst 2020 kl. 17:40

Ungur GR-ingur í toppbaráttunni - er högglangur og góður púttari

Tómas Eiríksson Hjaltested, 18 ára kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék fyrsta hringinn á Íslandsmótinu á -3

„Þetta var mjög góður hringur og fá mistök. Það má segja að þetta hafi smollið saman, eitthvað sem ég hef verið að bíða eftir,“ segir Tómas Eiríksson Hjaltested, 18 ára kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur en hann deilir efsta sæti í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í höggleik í Mosfellsbæ. Hann lék jafnt og flott golf og kom inn á 3 undir pari, fékk aðeins einn skolla en fjóra fugla.

„Ég var í nokkrum fuglafærum í fyrri hringnum og oft nálægt að fá fleiri en þennan eina, ég var í „reglulation“ á átta holum. Svo fékk ég slæma legu eftir upphafshöggið á 9. braut og tapaði þar eina höggi dagsins. Ég fékk síðan nokkuð þægilega fugla á 12., 13. og 14. braut í seinni hringnum. Á 12. holu var ég inn á flöt í 2 höggum og ekki langt frá því að fá örn. Sama var uppi á teningnum á 13. braut þar sem ég tvípúttaði og svo var ég alveg við flöt á 14. holu eftir upphafshöggið (á par 4) og vippaði upp að pinna og fékk léttan fugl. Svo komu þægileg pör á restina.“

Tómas fékk elskírn á því að vera í lokaholli í stigamóti á Hvaleyrinni fyrr í sumar en gekk ekki vel í lokahringnum. Hann segir að það fari í reynslubankann en þessi ungi kylfingur varð í 23. sæti á Íslandsmótinu í fyrra. Hann hefur sótt unglingastigamótin og stigamót þeirra eldri líka í sumar. Fyrr í vetur keppti hann sem áhugamaður á atvinnumannamóti á Evolve PRO mótaröðinni á Spáni og endaði þar í 9. sæti. Hann hefur æft mjög vel síðustu ár og draumur Tómas er að reyna við atvinnumennsku og komast á einhverja af mótaröðunum í útlöndum.

En hverjir eru helstu styrkleikar og veikleikar GR-ingsins?

„Ég er frekar högglangur og svo gengur mér vel að pútta. Ég var með 27 pútt á þessum fyrsta hring. Veikleikarnir eru líklega í styttri innáhöggunum, innan við 100 metra.“

Tómas byrjaði 10 ára í golfi og hefur alltaf verið í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann lýkur stúdentsprófi frá Verslunarskólanum næsta vor og langar að komast í háskóla í Bandaríkjunum og leika golf með náminu. Forgjöfin er lág eða +2,6 sem þýðir að hann gefur vellinum 3 högg í forgjöf. Forgjöfin og stúdentspróf frá Versló ætti að hjálpa honum að komst að í góðum skóla í Bandaríkjunum, er það ekki? „Jú, ég held það. Ég er að vinna í þessum málum núna,“ segir kappinn og hlakkar til næsta keppnisdags á Íslandsmótinu. Hann verður í eldlínunni í lokaholli og segist ekki hræðast sjónvarpsvélarnar sem sýna frá mótinu í beinni útsendingu á RÚV. „Þetta gengur vonandi vel. Ég hlakka bara til,“ sagði Tómas.