Fréttir

Unnið að lausnum á golfferðum eftir að Play hætti
Play hætti rekstri eftir gærdaginn. Málið setur þúsundir Íslendinga í óvissu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 29. september 2025 kl. 14:47

Unnið að lausnum á golfferðum eftir að Play hætti

Hundruð kylfinga voru og eru á leiðinni í golfferðir með Golfskálanum og Eagle golf á næstu dögum en fljúga átti með Play. Báðir aðilar segja að unnið sé í málunum af fullum krafti og lausna leitað til að koma farþegum á áfangastað.

Kári Steinn Karlsson, framkvæmdastjóri Golfskálans, segir við Viðskiptablaðið að unnið sé að því með fullum krafti að finna lausnir fyrir þá viðskiptavini sem höfðu bókað golfferðir með fyrirtækinu í gegnum flugfélagið Play.

Kári segir að Golfskálinn sé í reglulegu sambandi við bæði viðskiptavini og flugrekstraraðila, þar sem Play hafi sinnt flugi til margra þeirra áfangastaða sem Golfskálinn býður upp á í sínum ferðapökkum. „Við erum nú að skoða hvað er í boði af lausum flugvélum og hvaða leiðir við getum farið,“ segir Kári í samtalinu. „Þetta verður nokkurs konar púsluspil næstu daga og vikur, þar sem margir viðskiptavinir eru á leið í ferðalag á næstu dögum – jafnvel strax á morgun.“

„Við erum að gera okkar besta til að bregðast við þessum erfiðu tíðindum. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða þá sem hafa keypt af okkur ferðir. Það er mikil óvissa sem fylgir ástandi á borð við það sem við sjáum nú. Við vorum fullvissuð um að Play myndi halda áfram rekstri og vorum í góðri trú þegar við bókuðum flug með félaginu.

Eins og gefur að skilja er þetta flókin staða. Við biðjum um þolinmæði ykkar. Við lofum ykkur að við gerum allt sem við getum við að leysa úr þeirri stöðu sem komin er upp, með hagsmuni farþega okkar að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu frá Eagle á Facebook.