Valdís Þóra: „Ekki í boði að fá sprengjur og þrípútt“
Valdís Þóra Jónsdóttir hefur leik í dag kl. 11.58 að íslenskum tíma á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröð kvenna í Marokkó. Þetta er í annað sinn sem Leyniskylfingurinn leikur á þessu móti en hún komst inn á lokastigið í fyrra. Alls verða leiknir 5 hringir og er keppt er á Al Maaden og Samanah golfvöllunum í borginni Marrakech, Marokkó.
Staðan á mótinu:
Alls eru 120 kylfingar sem taka þátt og er hópnum skipt í tvennt á vellina tvo. Eftir 72 holur eða fjóra keppnishringi komast 60 efstu kylfingarnir inn á lokahringinn sem verður leikinn á Samanah vellinum. Í lok mótsins komast 30 efstu inn á LET Evrópumótaröðina.
Valdís Þóra spjallaði við kylfingur.is í aðdraganda mótsins og hafði þetta að segja um undirbúning sinn. „Æfingarnar að undanförnu hafa gengið fínt. Ég er búinn að leika æfingahringi á báðum völlum og mér leið vel á þessum völlum. Aðstæður eru fínar þrátt fyrir að vellirnir séu aðeins blautir eftir miklar rigningar að undanförnu. Það spáir fínu veðri næstu daga og þetta lítur vel út,“ sagði Valdís en að hennar mati eru keppnisvellirnir ólíkir að mörgu leiti. „Samanah völlurinn er líkur völlunum sem ég ég hef spilað í Arizona. Al Maaden er það líka en það er meira gras á honum og hann er því aðeins öðruvísi.“
Um leikskipulagið sagði Valdís. „Það er ekki í boði að fá sprengjur og þrípútt. Það er alltaf sama leikplanið – að hitta brautir, flatir og hafa púttin sem fæst. Markmiðið hjá mér er að halda ró minni, gera mitt besta og halda boltanum í leik. Og forðast sprengjur.“
Tinna Jóhannsdóttir verður aðstoðarmaður Valdísar í Marokkó og það er mikilvægt að fá slíkan stuðning að mati Valdísar. „Það er gott að fá annað álit á púttin og þess háttar pælingar. Á kvöldin er líka frábært að hafa einhvern félagsskap. Ég er ekki búinn að ímynda mér fyrsta höggið – ég held bara minni „rútínu“ og sé fyrir mér höggið þegar ég mæti á fyrsta teiginn og tek æfingasveifluna,“ sagði Valdís.