Fréttir

Valdís Þóra um miðjan hóp eftir fyrsta hring
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Fimmtudagur 7. febrúar 2019 kl. 08:53

Valdís Þóra um miðjan hóp eftir fyrsta hring

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, hóf í nótt leik á ISPS Handa Vic Open mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni. Hún lék fyrsta hringinn á parinu og er um miðjan hóp eftir daginn. Leikið er á tveimur völlum í mótinu. Annars vegar á Creek vellinum og hins vegar á Beach vellinum en það er völlurinn sem Valdís lék á í dag.

Hún hóf leik á 10. teig og lék fyrri níu holurnar á pari, þar sem hún fékk einn fugl og einn skolla. Á þeim síðari var hún komin á eitt högg undir par og var það allt þar til á áttundu holu. Þá kom skolli og endaði hún hringinn því á pari, eða 72 höggum.

Eftir daginn er Valdís jöfn í 78. sæti af 156 keppendum. Hún þarf því að halda vel á spöðunum á morgun ætli hún sér áfram en þá mun hún leika á Creek vellinum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.