Fréttir

Varapútter Woods frá árinu 2001 seldur fyrir rúmlega 21 milljón
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 27. september 2020 kl. 21:48

Varapútter Woods frá árinu 2001 seldur fyrir rúmlega 21 milljón

Varapútter Tiger Woods frá árinu 2001 seldist nýverið á Golden Age uppboðinu fyrir 154.928 dollara sem gerir rúmlega 21 milljón íslenskra króna. Þetta mun vera dýrasti pútter af þessu tagi sem hefur verið seldur.

Pútterinn er af gerðinni Scotty Cameron Newport II og var hann framleiddur sem varapútter fyrir Woods ef eitthvað kæmi fyrir aðalpútterinn sem hann hefur unnið 14 af 15 risamótum með. Scotty Cameron gerði þennan pútter árið 2001 en það er árið þar sem Woods kláraði svokallaði „Tiger-slemmu“ þegar að hann var handhafi allra risatitlanna eftir að hafa unnið Masters mótið í apríl 2001.

Woods notaði pútterinn aldrei í móti en hann æfði sig oft með pútternum en hann var nákvæm eftirlíking af aðalpútternum. Pútterinn er með sömu merkingum og sama PING gripi og Woods hefur notast við í mörg ár. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gamall pútter frá Woods selst fyrir háar upphæðir en árið 2019 seldist eitt stykki fyrir um það bil 12 milljónir, árið 2018 seldist annar fyrir 6 milljónir og árið 2014 var einn seldur á rúmlega 2,5 milljón. Það er því nokkuð ljóst að hlutir frá glæstum ferli Woods eru að verða eftirsóttari og verðmætari.