Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Westwood ætlar ekki að leika á fyrsta risamóti ársins
Lee Westwood.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 29. júlí 2020 kl. 22:01

Westwood ætlar ekki að leika á fyrsta risamóti ársins

Enski kylfingurinn Lee Westwood gaf það út nýverið að hann hyggðist ekki taka þátt í fyrsta risamóti ársins sem hefst eftir rúma viku þrátt fyrir að slakað hafi verið á reglum varðandi sóttkví fyrir leikmenn og kylfubera.

PGA meistaramótið, sem upphaflega átti að fara fram í maí, hefst 6. ágúst næstkomandi og er þetta fyrsta risamót ársins en Masters mótinu var frestað fram í nóvember sökum kórónuveirufaraldursins.

Westwood sagði að óvissan væri of mikil og að hann vildi ekki taka neinar áhættur með sína eigin heilsu.

„Ég get gert allar þær varúðarráðstafanir til að ég fái ekki veiruna en það gæti einhver annar smitað mig. Ég vil alls ekki smitast af þessu þar sem ég er með smá astma. Það er of mikil óvissa.“

Í framhaldinu sagði Westwood að andrúmsloftið væri ekki það sama nú þegar engir áhorfendur væru leyfðir á vellinum.

„Nú til dags þá er hluti af því að keppa fyrir mína parta að hitta félagana og allt sem tengist félagsskapnum.“

„Þetta er bara ekki lífið sem ég er vanur. Ég mæti út á völl og hvatningin er bara ekki til staðar fyrir mig.“