Woods: „Boltinn er klárlega að fljúga lengra í dag“
Margir kylfingar hafa verið spurðir út í skýrsluna og virðast flestir vera sammála skýrslunni en að sama skapi sagt að þetta yrði ekki einföld breyting.
Í viðtali fyrir Genesis Invitational mótið sem hefst á morgun var Tiger Woods spurður út í skýrsluna.
„Sko, ég hef alltaf sagt að golfíþróttin sé breytileg, hún hefur ekki staðnað. Boltinn er klárlega að fljúga lengra í dag miðað við þegar við notuðum balata bolta,“ sagði Woods. „Við höfum farið frá því að nota viðarkylfur í að nota háþróaðar málmkylfur. Íþróttin hefur breyst mikið. Það sem er pínu klikkað er að ég hef verið hluti af þessu öllu. Á mínum ferli, þegar ég byrjaði, vann ég Davis Love í bráðabana með persimmon dræver.“
Hann bætti því einnig við að lengd vala væri farin að hafa áhrif á velli.
„Það eru ekki margir vellir með landsvæði til að vera með 7800-8000 jarda langa velli af öftustu teigum, það er erfitt.“
Þrátt fyrir að skilja vel hugmyndir R&A og USGA viðurkenndi Woods að breytingin væri ekki einföld. „Við viljum að leikurinn sé skemmtilegur og við erum að reyna að fá fleiri iðkendur og með því að gera hausana stærri og fyrirgefanlegri þá verður leikurinn skemmtilegri. Þetta er því ansi flókið mál.“