Fréttir

R&A og USGA segja að takmarka verði högglengd til að bjarga íþróttinni
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 5. febrúar 2020 kl. 17:45

R&A og USGA segja að takmarka verði högglengd til að bjarga íþróttinni

R&A og bandaríska golfsambandið (USGA) kynntu sameiginlega skýrslu (e. Distance Insights Report) í gær þar sem sagði að skoða þyrfti þann möguleika á að setja einhverjar hömlur á það hversu langt kylfingar geta slegið með nútíma kylfum og boltum.

Í skýrslunni sem samböndin birtu segir að aukin högglengd sé mögulega að skemma íþróttina og þurfi að breyta þeirri þróun. Einnig kemur fram að síðan árið 2013 hafi meðal högglengd á bæði Evrópumótaröð karla og PGA mótaröðinni aukist sem nemur einum jarda (0,914 m) á hverju einasta ári.

Bestu konur heims hafa einnig sýnt fram á svipaða bætingu en meðal högglengd á LPGA mótaröðinni í dag er yfir 250 jarda (229 m).

Aukin högglengd hefur gert það að verkum að kænska leikmanna skiptir ekki jafn miklu máli og áður þar sem kyflingar geta einfaldlega slegið yfir þær hættur sem verða á leið þeirra.

„Við trúum því að nú sé kominn tími að brjóta á bak þessa þróun á högglend, bæði kylfinga og valla, og vinna að því að finna framtíðarlausn sem mun tryggja stöðu íþróttarinnar sem og auka notagildi núverandi og framtíðar valla,“ segir í skýrslunni.

„Sýn okkar hefur breyst undanfarið með nýjum gögnum og upplýsingum  og við trúum því að það er aldrei of seint að gera það rétta fyrir framtíð íþróttarinnar.“

Margir af frægustu völlum heims hafa komist í fréttir á undanförnum árum fyrir það að vera orðnir varnarlausir gegn högglengd nútíma atvinnukylfingsins.

Gamli völlurinn í St. Andrews er einn af þeim völlum en í logni eru nokkrar par 4 holur sem kylfingar geta komist inn á í upphafshögginu. Einnig hefur August National, heimili Masters mótsins, þurft að kaupa land í kringum völlinn til þess að lengja holur sem hafa þótt orðnar of stuttar. Nú er svo komið að landsvæði í kringum klúbbinn er orðið af skornum skammti og því lítið hægt að lengja völlinn.

Ljóst er að R&A og USGA taka þessara skýrslu alvarlega og verður áhugavert að fylgjast með hvernig þessar breytingar verða. Hugsanlega mun hinn almenni kylfingur leika með kylfur sem atvinnukylfingar mega ekki leika með þar sem þeir þurfa að leika með annað hvort kylfum eða boltum sem fljúga styttra.