Kylfukast

Kylfukast:  Leynisjóðurinn Forskot
Föstudagur 14. nóvember 2014 kl. 07:52

Kylfukast: Leynisjóðurinn Forskot

Eitt albesta framtak Golfsambands Íslands á undanförnum árum var stofnun afrekssjóðsins Forskots.  Stofnendur sjóðsins ásamt GSÍ voru Eimskip, Icelandair Group, Íslandsbanki og Valitor.  Stofnendurnir greiða í sjóðinn samtals 15 milljónir á ári eða alls 45 milljónir frá stonfun hans árið 2012.  Samkvæmt ársreikningi er framlag GSÍ 3,5 milljónir á ári.

Stjórn sjóðsins sem skipuð er einum fulltrúa frá hverjum stofnaðila úthlutar styrkjum til afrekskylfinga og nýtur við það ráðgjafar frá fagteymi. Marmið sjóðsins er að styrkja við bakið á þeim kylfingum sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.  Stífar kröfur eru gerðar til styrkþega og ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín.

Á árinu fór fram þriðja úthlutun úr sjóðnum og hana hlutu:

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
Ólafur Björn Loftsson, Nesklúbbnum
Valdís Þóra Jónsdóttir, Leyni
Axel Bóasson, Keili

Þessir fimm aðilar eru fjarri því að vera einu íslensku kylfingarnir sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni. Þeir voru þó þeir einu sem eftir því sem best verður séð sem hlutu náð fyrir augum stjórnar sjóðsins í ár.

Við fylgdumst spennt með í síðustu viku þegar þrír íslenskir kylfingar reyndu fyrir sér á 2. stigi úrtökumóta á evrópsku mótaröðina.  Einungis tveir eru styrkþegar hjá Forskoti. Sá þriðji barðist á eigin vegum. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort hið ráðgefandi fagteymi sé starfi sínu vaxið.

Það er kostnaðarsamt að reyna komast í fremstu röð í golfi. Íslenskir kylfingar hafa í áratugi reynt að komast að á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Fjárskortur varð frumkvöðlunum yfirleitt að falli.  Nú þegar afrekssjóður hefur verið stofnaður, af hverju hvílir þá leynd yfir því hversu hárra styrkja styrkþegar sjóðsins njóta? Er það leyndarmál hvernig hinum úthlutuðu 45 milljónum hefur verið skipt milli styrkþega?

Spyr sá sem ekki veit.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson