Kylfukast

Kylfukast: Afi og amma
Föstudagur 15. maí 2015 kl. 16:17

Kylfukast: Afi og amma

Þar sem opnanir allra helstu golfvalla landsins eru handan við hornið er kominn tími til að kasta nokkrum kylfum. Á síðastliðnu golfári var mest lesna fréttin á www.kylfingur.is um gjaldþrot Golfsambandsins. Hvort það var bara fyrirsögnin eða efni greinarinnar sem tryggði þennan mikla lestur er ljóst eftir langan vetur að lítið líf er í þrotabúinu.

Vorið hefur verið kalt en það virðist vera að vellir landsins komi almennt vel undan vetri. Ekki veitir af eftir tvö léleg golfsumur í röð. Ástundunin er að minnka meðalaldur kylfinga er að hækka. Áttatíu eða níutíu og eitthvað kynslóðin virðist ekki ætla að stunda mikið golf. Meira um hjólreiðar eða Cross-fit á þeim bænum.

Staðan á hinum íslenska golfmarkaði er þannig að flestir kylfingar eru öldungar. Mikill meirihluti þess góða fólks sem ég kynntist á upphafsárum mínum hjá GR hefur fyrir löngu sprengt 50 ára múrinn. Sem betur fer stunda þau flest golf enn af kappi en það fer minna fyrir börnunum þeirra. Með sama áframhaldi þurfum við að horfast í augu við þá staðreynd að meðalaldur kylfinga á Íslandi verði mjög nærri 60 árum.

Í þessum fyrsta Kylfukastpistli sumarsins 2015 vil ég hvetja alla eldri kylfinga á Íslandi til að fara með barnabörnin sín í golf. Farið í Bása, Hraunkot, á litla golfvelli hvar sem þá má finna og leiðbeinið með fyrstu handtökin.

Ég byrjaði að leika golf 13 ára gamall.  Fyrstu árin í golfinu var helsti leikfélagi minn 43 árum eldri, afi Ketill. Hann sótti mig á nánast hverjum degi eftir vinnu og saman fórum við og lékum níu eða átján holur í Leirunni svona eftir því hvernig vindar blésu. Ef ekki hefði verið fyrir afa, þá efa ég að ég væri kylfingur í dag.

Golfhreyfingin þarf á því að halda að iðkendur taki ekki  bara með sér börnin sín á völlinn, heldur frekar barnabörnin. Smiti þau af golfbakteríunni til frambúðar. Þannig tryggjum við framgang golfíþróttarinnar.

Gleðilegt golfsumar 2015!

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson