Public deli
Public deli

Kylfukast

Kylfukast: Afsakið - fór í golf!
Sunnudagur 11. október 2020 kl. 12:56

Kylfukast: Afsakið - fór í golf!

Nú er rétt hálft ár síðan einhver undarleg öfl lögðu upp í þá vegferð að vegna Covid ástandsins væri snjallt að banna kylfingum að spila golf. Eins og fram kom í umræðunni þá og óþarft er að endurtaka, er engin íþrótt jafn hentug til ástundunar þegar fólk þarf að halda fjarlægð frá hvort öðru. Golf er líka eina íþróttagreinin sem á heimsvísu gerði stórfelldar breytingar á reglum sínum til að bregðast við Covid kröfum. Bannað var að snerta stöngina. Holubollar voru grynntir með svampi. Ekki teknir uppúr holunni. Getum hlegið að því í dag. Hrífur voru teknar úr glompum og heimilað að stilla bolta upp í glompu.  Kylfingar hafa notið sumarsins á frábærum golfvöllum landsins. Stjórnendur golfvalla á Íslandi fá mikið lof fyrir gæði valla og fagmennsku í umhirðu. Frábært að sjá hversu góðir íslenskir golfvellir eru. Kunnátta vallarstarfsmanna á Íslandi er til mikillar fyrirmyndar. 

Á lokametrum golfsumarsins ganga yfirvöld fram af mikilli hörku og heimta að golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu sé lokað. Að þessu sinni mun ekki vera eingöngu við GSÍ að sakast. Ekki er vitað til að nein smit hafi verið rakin til golfiðkunar. Golf er stór þáttur í hreyfingu og geðheilbrigði tugþúsunda íslendinga. Golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu var nauðugur sá kostur að fylgja fyrirskipunum.  Á sama tíma er landsleikur í knattspyrnu talinn þjóðhagslega mikilvægur. Hvernig var þá með ferðaþjónustuna? Í landi þar sem 350 þúsund manns búa er nú eitt sett af reglum fyrir höfuðborgarbúa og annað fyrir sveitamenn úti á landi. Þannig máttu fara í sund , klippingu og golf í Hveragerði en ekki í Hafnarfirði. Nema þú sérst alþingismaður í stjórn GSÍ. Þá gerirðu bara það sem þér dettur í hug og biðst svo afsökunar. 

Sorglegur endir á frábæru golfsumri. Svona eins og að fá á sig mark í uppbótartíma og tapa leik. Í vor vildi stjórn Golfsambandsins loka golfvöllum. Vera má að sú stórundarlega umræða hafi haft áhrif á kröfu yfirvalda um lokanir núna strax, rétt áður en veðurguðirnir sjá um verkið.  Í vor töldu Íslendingar sig hafa sigrað Covid veiruna og við hátiðlega athöfn afhentum við þríeykinu fálkaorðuna. Hljómar í dag eins og að veita kylfingi sem fékk fugl á fyrstu holu Íslandsmeistaratitilinn á öðrum teig. Öll lína er farin og enginn veit hvernig  á að haga sér. Hvað má og hvað má ekki. Trúverðugleikinn farinn. Málsmetandi Íslendingar skrifa í blöðin og hvetja okkur til að standa saman og fórna frelsinu. Ég hvet líka til samstöðu. Fylgum leiðbeiningum um sóttvarnir. En höldum frelsinu og spilum golf. Golfvöllurinn er öruggur staður að vera á. Sóttvarnayfirvöld eða þríeykið eru ekki óskeikul og hér er skotið framhjá. En í upphafi skyldi endinn skoða. Voru bréfaskriftir GSÍ til ráðuneytisins frá í vor lagðar til grundvallar ákvörðuninni ?

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Verkefnið framundan er að tryggja að golf á Íslandi verða leikið án truflana næsta sumar, því veiran verður enn á ferli. Ég nenni ekki að biðjast afsökunar 100 sinnum því ég ákvað að fara í golf. 

Verið dugleg að æfa í vetur. Golfsumarið 2021 verður á Íslandi. 

Margeir Vilhjálmsson.