Kylfukast

Kylfukast: Fjárfestum í framtíðinni
Laugardagur 25. október 2014 kl. 09:50

Kylfukast: Fjárfestum í framtíðinni

Við sem stundum golf þekkjum það öll af eigin reynslu að það getur verið kúnst að ná réttu tökunum. Flestir sem stunda íþróttina í dag eiga það sameiginlegt að hafa byrjað að leika golf eftir að þrítugs- eða jafnvel fertugsaldrinum var náð. Þeir iðkendur sem kynnast golfi sem börn eða unglingar eiga auðveldara með að ná tökum á sveiflunni. Krakkar eru ótrúlega fljótir að ná tökum á hlutum sem oft reynast fullorðnum flóknir. Með þolinmæði og góðum leiðbeinendum geta börn og unglingar náð undraverðum árangri á skömmum tíma.

Nú er liðinn áratugur frá því GR byggði Bása. Nokkrum árum síðar opnuðu Keilismenn Hraunkot. Bæði þessi æfingasvæði eru opin allan ársins hring. Hversu mörgum krökkum hefur á þessum tíma verið boðið í golfkynningu á vegum golfklúbbanna eða Golfsambandsins? Svarið er örfáum og örsjaldan. Því miður. Golf hefur frá síðustu aldamótum búið við sjálfkrafa iðkendaaukningu en síðustu tvö árin hefur orðið breyting þar á. Golfurum er hætt aðfjölga. Börn og unglingar sýna íþróttinni minni áhuga en áður. Meðalaldur iðkenda fer hækkandi og ríflega helmingur félagsmanna Golfsambandsins er yfir fimmtugu.

Mér fannst Skólagolf sem kynnt var um síðustu aldamót einstaklega sniðug leið til að kynna golf fyrir krökkum í skólum. Á einhvern hátt lognaðist það útaf. Nú er það SNAG. Ég hef ekki kynnt mér SNAG mjög náið en eftir því sem ég kemst næst er notað „innigolfdót“ til að kenna réttu hreyfingarnar í golfinu. Ég hef ekkert heyrt nema gott um SNAG og það ku vera gaman að leika með þetta dót. Bæði Skólagolf og SNAG eiga það sameiginlegt að vera ekki golf.  Það þýðir ekkert að plata krakka. Þau þekkja alveg muninn á hvað er alvöru og hvað er plat.

Ég byrjaði í golfi árið 1985, þrettán ára gamall.  Fékk fimmu, sjöu og pútter í kjallaranum hjá ömmu og afa á Túngötunni. Aflagt dót frá Páli Ketilssyni. Boltana tíndi ég upp í Bergvíkinni. Við lékum okkur á Jóelnum nokkrir saman. Með nokkra bolta í vasanum og þrjár kylfur á öxlinni var arkað af stað. Gulir Slazenger B51 ásamt DDH Maxfli voru toppurinn. Heimsmeistaramót fór fram á hverjum degi og svo æft á milli. Allar áskoranir á vellinum voru leystar með fimmu, sjöu og síðar um sumarið níu. 

Árið eftir fékk ég golfsett í fermingargjöf. Bakvið æskuheimilið á Háholtinu í Keflavik var forláta grasflöt í órækt.  Með garðsláttuvélinni voru slegnar þrjár flatir, grafnar holur með skóflu, heimatilbúnum flöggum troðið í þær og spilað golf. Ef það var ekki hægt að fara í Leiruna var spilað í Háholtinu. Gæði flatanna voru þannig að betra var að vippa í holuna en reyna að pútta.  Það skipti engu máli tilgangurinn helgar meðalið.  Ég var minntur á þetta um daginn þegar góðvinur minn Peter Salmon setti þátt um goðsögnina Seve Ballesteros á Fésbókina. Hann byrjaði sem krakki á Spáni með einungis 3 járn og bjó til sína eigin golfvelli með ímyndunaraflinu. Hvet ykkur öll til að horfa á þennan frábæra þátt á Youtube.

Eins leitt og það er að segja það þá er það mín skoðun að golfhreyfingin sé að standa sig hörmulega í nýliðun. Það vantar ekki að golfkennarar séu útskrifaðir úr PGA skólanum. En hvaða gagn er að því að útskrifa golfkennara í massavís, þegar engin eru atvinnutækifærin? Af hverju er golfhreyfingin ekki með 5-10 golfkennara í fullu eða hálfu starfi við það að ferðast milli grunn- og framhaldsskóla og landshluta að kynna golf. Ekki SNAG eða Skólagolf, heldur alvörugolf?  Til að kveikja áhuga þarf bara eina kylfu og einn bolta. Sjöu eða níu. Smá leiðbeiningar um grip og stöðu. Grasflöt í nágrenni við heimilið. Virkja svo ímyndunaraflið. Fyrsta sumarið þarf ekki meira.

Takist þetta er fjarlægðin frá heimilinu á golfvöllinn ekki vandamálið. Þeir áhugasömu finna leiðina.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson