Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Kylfukast

Kylfukast: Golfsýning!
Sunnudagur 24. júlí 2016 kl. 00:34

Kylfukast: Golfsýning!

Það fylgdi því engin sæluvíma að ljúka leik í Íslandsmótinu í golfi eftir 36 holur, maður var rétt að detta í gírinn. Þrír hringir á Jaðri, fyrsti í Pro-Am og svo tveir í Íslandsmótinu voru frábær skemmtun.

Framkvæmd Golfklúbbs Akureyrar á mótinu er í einu orði sagt framúrskarandi. Sjálfur hafði ég treyst á að veðurguðirnir myndu að vökva völlinn fyrir mótið. Þeir kusu þó að fara aðra leið. Fyrir vikið mun ég hafa þá góðu afsökun að eina ástæðan fyrir því að ég féll úr leik var sú að fyrstu 18 holurnar lék ég í Pro-Quip regnbuxum sem keyptar voru í Golfverslun Sigga Pé í Grafarholtinu árið 1996. Það er ekki gæfulegt að vakna 45 mínútum áður en mæta skal á teig og uppgötva að samanbrotnu regnbuxurnar sem nota átti voru í raun regnjakki. Þá eru góð ráð dýr. Framfarirnar í regnbuxnagerð á síðustu 20 árum hafa verið ótrúlegar.

Það sama má segja um Jaðarsvöll og íslenska kylfinga. Um síðustu helgi fengu golfáhugamenn að fylgjast með ótrúlegri golfsýningu Henrik Stenson og Phil MIckelson á Royal Troon vellinum í Skotlandi. Phil lék á 65 höggum og hefði náð að tryggja sér sigur á 144 Opnum mótum með frammistöðunni. Því miður var hann hinsvegar að leika í því 145. og Henrik Stenson sýndi frammistöðu sem ekki hefur áður sést í sögu Opna mótsins. Sama er upp á teningnum á Íslandsmótinu í golfi. Tvær konur eru í efstu sætunum á 6 og 7 höggum undir pari. Það hefur aldrei sést áður. Tólf karlar eru undir pari eftir 54 holur. Tveir efstu eru 7 undir pari og í 12. sætinu er Andri Þór Björnsson sem leikið hefur sérdeilis vel á Eimskipsmótaröðinni í ár á 1 höggi undir pari. Sex högg skilja að 12 efstu menn.

Gæðin sem íslenskir kylfingar hafa sýnt í viðureigninni við Stóra bola eru einstök í íslenskri golfsögu. Að öðrum ólöstuðum finnst mér mesti afreksmaður mótsins vera sá sem er jafn í 41. sæti, sexfaldur Íslandsmeistari og heiðursfélagi í Golfklúbbi Akureyrar á 15 höggum yfir pari, 63 ára ungur. Þvílíkur meistari. Okkar eigin Tom Watson, Björgvin Þorsteinsson. Framundan er einvígi okkar bestu kylfinga. Golfsýning betri en nokkru sinni hefur sést hér á landi. Því miður eru vandamálin sem snúa að Íslandsmótinu enn þau sömu og þau hafa verið síðustu 20 árin. Alltof fáir áhorfendur mæta á völlinn til að njóta sýningarinnar. Ég vona innilega að það rætist úr og golfáhugamenn hópist á svæðið en þetta er verkefni sem golfhreyfingin getur ekki lengur horft framhjá. Gæðin sem íslenskir kylfingar bjóða nú uppá eru slík að enginn ætti að missa af því að sjá með eigin augum.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024