Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Kylfukast

Kylfukast: Íþróttamaður ársins
Laugardagur 30. desember 2017 kl. 14:00

Kylfukast: Íþróttamaður ársins

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld segir í kunnum dægurlagatexta. Það er nánast eins og gerst hafi í gær að Páll Ketilsson sendi beint frá Bahamas þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á sínu fyrsta móti á LPGA mótaröðinni. Byrjunin var draumi líkust og það sem á eftir fylgdi var bara betra og óþarfi að tíunda nánar. Öfugsnúni eldhúskollurinn er í höndum hennar. Ólafía Þórunn er Íþróttamaður ársins. Verðskuldað.

Hún hefur unnið hug og hjörtu landsmanna með einstaklega hreinskilinni framkomu. Gleymdi að pissa, gleymdi að borða og var of upptekin af leik meðspilaranna. Upplýsingar sem íþróttamenn eru almennt ekkert að deila með almenningi. En Ólafía Þórunn reynir að draga lærdóm af hverri raun og við höfum fengið að hrífast með. Vandfundið er það viðtal þar sem hún er ekki skælbrosandi og finnur jákvæðu punktana sem draga má fram. Hún er góð fyrirmynd fyrir alla íþróttamenn og vel að titlinum komin. Hjartanlega til hamingju Ólafía Þórunn.

Að mati Kylfukasts lá ljóst fyrir hver niðurstaðan í kjörinu var strax í upphafi sjónvarpsútsendingar þegar fengnir voru til viðtals formaður KSÍ og forseti GSÍ. Meðan Guðni Bergsson gat unað hverjum sem er að verða kjörinn Íþróttamaður ársins var forseti GSÍ blýspenntur að upplýsa enn og aftur að árið 2017 væri besta golfár sögunnar á 75 ára afmæli GSÍ og að hann væri „#Team Ólafía“.

Það var einstaklega miður við þetta tækifæri skyldi gleymast hjá dyggðaskreytinum að golfíþróttin átti tvær konur á topp tíu listanum. Hversu oft höfum við séð tvær konur úr sömu íþróttagrein á topp 10? Kylfukast óskar Valdísi Þóru sérstaklega til hamingju með frábæran árangur á árinu 2017. Það er mikill heiður vera á topp 10 listanum.

Meðan við njótum gleðinnar skulum við ekki gleyma að golfíþróttin er hverful. Aðgangskortin á mótaröðum þeirra bestu eru ekki sjálfgefin og þau geta horfið mun hraðar en þau birtust. Fjölmörg dæmi eru því til sönnunar. En fögnum því að við eigum tvær frábærar golfkonur sem leika á mótaröðum þeirra bestu. Njótum þess og styðjum vel við bakið á þeim. Karlarnir fylgja vonandi í kjölfarið.

Stjarna golfíþróttarinnar hefur skinið skært á árinu sem er að líða. Svo skært að sumum er gjarnt að tala um besta golfár sögunnar. Það er langur vegur frá að svo sé. Það er alveg eins og að segja að besta Morgunblað sögunnar, sé það sem kom inn um dyrnar í morgun.

Afreksár er eitt - golfár er annað. Uppbygging er í lágmarki, fjölgun félagsmanna í GSÍ er öll í aldurshópnum 50+. Jafnaldrar Ólafíu og Valdísar eru að gera eitthvað allt annað en að spila golf.

Margeir Vilhjálmsson
 

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024