Kylfukast

Kylfukast: Karlmenn sem standa í lappirnar
Frá Muirfield vellinum í Skotlandi, einum þekktasta golfklúbbi í heimii.
Föstudagur 20. maí 2016 kl. 23:56

Kylfukast: Karlmenn sem standa í lappirnar

 
Stórfréttir berast nú um golfheiminn frá vöggu golfsins Skotlandi. R&A hafa tilkynnt The Honourable Company of Edinburgh Golfers klúbbnum sem eiga Muirfield golfvöllinn að þeir hafi tekið völlinn útaf „the Open rota“ í kjölfar atkvæðagreiðslu þar sem felld var sú tillaga að heimila konum aðgang að golfklúbbnum. Þessi atkvæðagreiðsla hefur vakið upp reiði og hneykslun um víða veröld. Fjölmargir frægir kylfingar og stjórnmálamenn hafa tjáð sig um atkvæðagreiðsluna og allir passað uppá að fylgja hinni pólitísku rétthugsun. Að atkvæðagreiðslan sé hneisa.
 
Þetta Kylfukast er hinsvegar skrifað til stuðnings vinum mínum í The Honourable Company of Edinburgh Golfers. Rétt er að geta þess að atkvæðagreiðslan um að heimila konum aðgang að klúbbnum fór þannig að 66% voru því fylgjandi, en 34% á móti. Til að breyta lögum klúbbsins þarf 2/3 hluta atkvæða, eða 66,67%, þannig að óhætt er að segja að litlu hafi munað. Þau sem hafa gott golfminni muna væntanlega eftir látunum á Masters fyrir nokkrum árum, vegna þess að konum var ekki hleypt inn í klúbbinn þar. Málið var svo leyst með því að hleypa einni konu í klúbbinn. Jafnrétti eða friðþæging?
 
Þessi ágæti golfklúbbur á sögu að rekja frá árinu 1744, sem gerir hann 272 ára í ár. Fyrst voru þeir í Leith, svo í Musselburgh og loks frá 1891 hafa þeir verið í Muirfield. Gestir eru velkomnir á Muirfield á þriðjudögum og fimmtudögum. Panta þarf rástíma fyrirfram og vallargjaldið er litlar 40.000 krónur. Leika má tvo hringi fyrir 55.000 kr. á dag, en hafa ber í huga að á seinni hring verður að leika foursome. 
 
Notkun farsíma og annarra raftækja til rafrænna samskipta er stranlega bönnuð á landareign klúbbsins. Vilji maður nota farsíma á landareigninni skal hann stilltur í flugham. Myndatökur eru stranglega bannaðar.
 
Það veit ég fyrir víst að ekki er langt síðan klúbburinn fór að notast við tölvupóst.
 
Hádegismatur í klúbbhúsinu kostar litlar 5.400 kr. Á Muirfield er boðið uppá bestu purusteik sem finnst á norðurhjara veraldar. Um það er ekki deilt. Fjölmargir íslenskir karlmenn sem heimsótt hafa Muirfield geta borið vitni um það. Í hádegismatnum á að vera í blazer og með bindi. Einn vinur minn reyndi að fara úr jakkanum meðan hann borðaði, en var umsvifalaust rekinn í hann aftur. „Jackets have not been excused“. Annar góður félagi laumaði sér aðra umferð í purusteikina slík var dásemdin. Þegar ætlaði svo í þriðja skiptið var slegið á puttana á honum: „You have already been served“.
 
Já, þeir passa vel uppá gestina sína skosku karlmennirnir á Muirfield. Og völlurinn. Hann er unaður. Besti strandvöllur í heimi. Fyrsti strandvöllur í heiminum með tvær 9 holu lykkjur sem báðar byrja og enda við klúbbhúsið. Hannaður af engum öðrum en Old Tom Morris árið 1891 og lagaður aðeins til af Harry Colt árið 1923.
 
Allan þennan tíma hafa aðeins karlmenn verið meðlimir í The Honourable Company of Edinburgh Golfers. Nú árið 2016 er þeim gert að greiða atkvæði um að hleypa konum í klúbbinn eftir 272 ára tilveru. Ég fagna því að þeir felldu tillöguna i atkvæðagreiðslu. Konur hafa ekkert í þennan klúbb að gera. Hann er stofnun karlmanna.Nær væri að friða klúbbinn. Þeir karlmenn sem eru meðlimir hafa boðið eiginkonur sínar velkomnar þangað alla tíð. Og þær hafa ekki þurft að greiða eitt einasta pund fyrir. Ég er handviss um að ef eiginkonur félagsmanna hefðu fengið að greiða atkvæði um hvort leyfa ætti konum aðgang í klúbbinn, hefði atkvæðagreiðslan farið þannig að 100% hefðu greitt atkvæði gegn aðgengi kvenna í klúbbinn. 
 
Þáttur R&A í málinu er hin mesta hræsni. Refsa klúbbnum með því að taka völlinn út af Open rota. Væri ekki nær fyrir R&A að líta í eigin barm og byrja á heimavelli. Hvernig er málum háttað þar?
Reka R&A Open mót fyrir konur? Nei. Ladies Golf Union gerir það.
Hvernig er verðlaunafjár skipting milli karla- og kvennamótaraðanna í golfi? Hversu mikið leggja R&A til uppbyggingar kvennagolfs samanborið við karla.  Við viljum jú öll klárlega jafnrétti. He for she og allt það. En samt sem áður ætla 95% íslensku þjóðarinnar að kjósa kall sem forseta, þrátt fyrir að þrjár frambærilegar konur séu í framboði. Einn grjótharður karlaklúbbur að refsa öðrum. Þvílíkt rugl. 
Eina almennilega svarið er að R&A fjármagni stofnun golfklúbbs þar sem eingöngu konur geta fengið aðgang. Flottur völlur með almennilegu SPA og látum, þar sem konur geta notið dagsins í friði fyrir körlum.
 
Jafnrétti er ekki búið til með því að troða konum inn í rótgróna karlaklúbba, eða troða körlum inn í rótgrónar kvenhreyfingar. Það er gott að kynin eigi griðastaði hvort fyrir öðru. Lítum bara á Hjallastefnuna. Strákar eru strákar og stelpur eru stelpur.
 
Ég er ánægður með mína menn í The Honourable Company of Edinburgh Golfers. Karlmenn sem standa í lappirnar og láta pólitíska rétthugsun lönd og leið.
 
Gleðilegt golfsumar.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson

(höfundur er stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur. Skrif og skoðanir sem settar eru fram í Kylfukasti eru á eigin ábyrgð og hafa ekkert með Golfklúbb Reykjavíkur að gera).