Kylfukast

Kylfukast: Texas borgarar
Fimmtudagur 22. október 2015 kl. 11:22

Kylfukast: Texas borgarar

Hreint ágæt aðsend grein Sigurgeirs Jónssonar um sanngirni forgjafarútreiknings í „Texas Scramble“ minnti mig á beiðni góðs félags míns að fjalla um þetta ágæta leikfyrirkomulag sem er nokkuð vinsælt hér á landi.

Byrjum á byrjuninni. Texas Scramble er afbrigði af leikfyrirkomulagi sem heitir Scramble. Scramble er þannig að tveir til fjórir leikmenn mynda lið þar sem allir slá af teig. Besti boltinn er valinn og allir leikmenn leika frá þeim stað. Þetta er svo endurtekið alveg þangað til boltanum er komið í holuna. Texas afbrigðið er þannig að leikmaðurinn sem á boltann sem valinn er hverju sinni má ekki leika næsta höggi. Því verða að lágmarki að vera þrír leikmenn í „Texas Scramble“ liði. Tveggja manna "Texas Scramble" er í raun leikfyrirkomulag sem heitir Greensome (og er einstaklega skemmtilegt).  Það leikfyrirkomulag sem Sigþór vísar til í grein sinni heitir Scramble.

Á Íslandi hefur tveggja manna Scramble notið töluverðra vinsælda í gegnum tíðina bæði í opnum mótum og einnig í fyrirtækjamótum. Forgjöf liða er fundin út með því að leggja saman forgjöf liðsmanna og deila með ýmist 4 eða 5. Fyrir nokkrum árum fundu einhverjir sérfræðingar uppá því að bæta inn ákvæði sem hljómar á þessa leið: "Forgjöf liðs getur aldrei verið hærri en forgjöf þess leikmanns liðsins sem hefur lægri forgjöf." Þannig meint að ef tveir leikmenn skrá sig saman til leiks, annar með 1 og hinn með 34, ættu þeir að fá 34+1=35/5 = 7 í liðsforgjöf. Nýja reglan gaf þeim því bara 1.

Þetta var gert til að koma í veg fyrir að lágforgjafarkylfingur, oft nefndur meistari, kæmi með í Scramble mót einhvern háforgjafar hakkara sem gerði ekkert fyrir liðið nema gefa því hærri forgjöf. Meistarinn hirti þannig fyrstu verðlaun án þess að nota eitt einasta högg frá hakkaranum, sem í raun var lítið annað en góður félagsskapur og úrvals forgjöf. Aldrei var litið til þess að háforgjafarkylfingur með metnað gæti hafa ráðið meistara í vinnu til að rústa Scramle móti.

Dæmi Sigurþórs er annars eðlis en hann er mjög ósáttur við að deilt sé með 5 þar sem hann og konan hans sem bæði eru meðalkylfingar eigi ekki séns í tvo meistara forgjafarlega séð og ætli þar af leiðandi ekki að spila í Scramble mótum meðan deilt er með 5. Svarið við þessu er einfalt. Því miður, þið eigið aldrei séns. Alveg sama þótt deilt væri með einum. Tveir meistarar munu alltaf rústa ykkur, bara af því þeir kunna að keppa. Ef þið hjónin hafið metnað til að vinna Scramble mót gerið þá annað af tvennu. Æfið ykkur og verðið meistarar, eða ráðið ykkur meistara og leikið í sitthvoru liðinu.

Scramble er liðakeppni. Ef maður vill vera í vinningsliði þá reynir maður að fá með sér leikmann sem styrkir liðið með því að bæta upp veikleika hins hvort sem það er með hárri forgjöf eða meiri getu. Þannig er það jafn gáfulegt fyrir tvo leikmenn með 15-20 í forgjöf að fara saman í Scramble mót með það í huga að vinna og það væri fyrir Jurgen Klopp að stilla upp fimm markvörðum í vörn Liverpool með það að markmiði  halda hreinu.

Scramble er ekki góður keppnisleikur. Hann er samkomuleikur haldinn á golfvelli til skemmtunar. Kjörinn í fyrirtækjamót, vonlaus í alvöru keppni. Þar á frekar að leika Greensome, eða heldur Foursome. Þeir leikir sjást alltof sjaldan á íslenskum golfvöllum.

Ef þið viljið svo taka þetta lengra hættið þá að leika alltaf til forgjafar. Finnið ykkur góða leikfélaga og leikið Foursome holukeppni. Skemmtilegasti og hraðasti leikur sem til er í golfi.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson