Viðtal

Sprangar um golfvellina á öðrum fæti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 22. mars 2023 kl. 10:07

Sprangar um golfvellina á öðrum fæti

Tómas Rasmus lætur ekki fötlun sína koma í veg fyrir að hann geti stundað golfíþróttina en þessi rétt tæplega sjötugi kylfingur nýtur þess að elta golfboltann þó það sé vissulega erfiðara eftir að hann missti stóran hluta af hægri fæti fyrir nokkrum árum. Tómas og Hlíf Erlingsdóttir, kona hans, eru dugleg í golfi og eru félagar í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. 

Tómas sækir grænar golfgrundir hér heima og erlendis og sprettur úr spori úr golfbílnum á teig, braut eða á flöt og nýtur stuðnings gerfifótar frá Össurri. Er núna með útgáfu númer fimm. Okkar maður hefur verið kennari stóran hluta ævinnar og mest kennt stærðfræði en líka eðlis- og efnafræði. Hann lætur ekki deigan síga og vill hafa eitthvað meira fyrir stafni en taflmennsku og golf og er því enn að kenna þó hann eigi bara ár eftir í sjötugt. Tommi hefur lengi haft mikinn áhuga á skák og stundar hana - þar þarf hann að nota höfuðið eins og reyndar í golfi, alla vega svona með. 

Kylfingur.is hitti þau hjón á Islantilla á Spáni í páskaferð 2022 og það var ekki hægt að sleppa því að fara 18 holur með þeim hjónum. Að þeim loknum settumst við niður og tókum spjall um golfið, krabbameinið, skákina og margt fleira sem Tommi dílar við og hefur þurft að díla við - en lætur ekki deigan síga. Er þannig mikil og góð fyrirmynd fyrir þá sem eiga við fötlun að stríða en ekki síður fyrir hina. Tommi er ekkert venjulegur (golf)gaur,  hann er mjög hress eins og heyra má í skemmtilegu spjalli hans við Pál Ketilsson.

Tómas og Hlíf á góðri stundu á Islantilla golfvellinum.