Viðtal

Þórdís Geirs er óstöðvandi
Þórdís Geirsdóttir með Íslandsmeistarabikarinn ásamt þeim Ragnheiði Sigurðardóttur og Maríu Málfríði Guðnadóttur. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 26. júlí 2022 kl. 07:53

Þórdís Geirs er óstöðvandi

Íslandsmeistari, í flokki 50 ára og eldri, áttunda árið í röð.

Þórdís Geirsdóttir úr GK sigraði örugglega í kvennaflokki, 50 ára og eldri, á Íslandsmóti eldri kylfinga sem fór fram á Jaðarsvelli Golfklúbbs Akureyrar dagana 14.-16. júlí sl. Þórdís lék hringina þrjá á 228 höggum (76-75-77) eða á 15 höggum yfir pari vallarins. Ragnheiður Sigurðardóttir varð önnur á 41 höggi yfir pari og María Málfríður Guðnadóttir hafnaði í þriðja sæti, einu höggi á eftir Ragnheiði. Þær Ragnheiður og María koma báðar úr GKG.

Þórdís Geirsdóttir er fædd árið 1965 og varð því gjaldgeng í flokk 50 ára og eldri árið 2015. Hún tók þátt í Íslandsmóti eldri kylfinga sama ár og stóð uppi sem sigurvegari. Hún hefur síðan tekið þátt árlega og merkilegt nokk, sigrað á hverju einasta ári. Með sigrinum á Akureyri varð Þórdís þannig Íslandsmeistari, í flokki 50 ára og eldri, áttunda árið í röð.

Þórdís sagði í spjalli við kylfing.is að mótið á Akureyri hafi verið virkilega vel heppnað. Hún sagðist ekki hafa átt von á því að sigra og sér í lagi ekki með þeim yfirburðum er raun bar vitni.

„Ég sigraði naumlega á síðasta ári og árið þar áður svo ég átti nú von á harðari keppni í ár.“

Þórdís segist nánast ekkert æfa skipulega en hún segist spila þeim mun meira.

„Ég reyni að spila á hverjum degi og ég spila alltaf 18 holur. Ég held að ég hafi æft nóg fyrir lífstíð,“ segir þessi öflugi reynslubolti og hlær. „Þessi taktur hefur hentað mér vel. Það er svo misjafnt hvað hentar fólki. Ég er ekki að fara í einhverjar sveiflubreytingar eða annað sem þarf að æfa sérstaklega á þessum aldri. Mér líkar þessi taktur.“


Þórdís varð Íslandsmeistari í kvennaflokki árið 1987 eða sigraði Landsmótið í golfi, eins og mótið hét í þá daga. Þórdís segir að þó vissulega hafi hún viljað hampa fleiri Íslandsmeistaratitlum, þá hafi samkeppnin verið hörð hjá konunum á þessum tíma.

„Ragga Sig, Steinunn Sæmunds og auðvitað Karen Sævars voru firnasterkar. Ég er bara mjög sátt við minn eina Íslandsmeistaratitil og stolt af honum.“

Þórdís hefur fengið tækifæri til að leika fyrir Íslands hönd, bæði í kvennaflokki á sínum tíma og í öldungaflokki. Hún segir svo sem að þau landslið sem hún hafi leikið fyrir hafi nú ekki unnið stóra sigra en hún sé þó stolt að því að hafa fengið þann heiður að hafa leikið fyrir hönd Íslands.

„Það er afskaplega gaman og gefandi að leika fyrir hönd lands síns og þjóðar. Félagsskapurinn hefur verið frábær og ferðalögin eru orðin ansi mörg. Ég stefni á Evrópumót öldungaliða í lok ágúst, byrjun september og hlakka mikið til. Ég fór fyrir nokkrum árum í Opna svissneska öldungamótið en það var virkilega gaman. Ég stefni jafnvel á að gera meira af því að fara í svoleiðis mót. Á þokkalegum degi á ég vel að geta komist í gegnum niðurskurðinn á slíkum mótum.“

Íslenska kvennalandsliðið 50 ára og eldri á Evrópumóti landsliða í Póllandi árið 2016. Þórdís Geirsdóttir, sem er þriðja frá vinstri á myndinni, varð jöfn í þriðja sæti í höggleikskeppninni á mótinu.

Hvað markmiðin varðar og það sem henni finnst hún eiga eftir að tékka af listanum segir Þórdís að hana langi að slá draumahöggið á 17. holu í Vestmannaeyjum.

„Að öðru leyti er ég bara í núinu og er hvorki að hugsa um næstu Íslandsmót eldri kylfinga neitt sérstaklega, né önnur verkefni. Ég mun þó mæta til Eyja í ágúst og þar er markmiðið að komast í gegnum niðurskurðinn. Við eigum svo ótrúlega marga góða kylfinga hér heima að ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki að fara að verða Íslandsmeistari í ágúst.“

Ástríðukylfingur og hálfgerður golf-fíkill á borð við Þórdísi Geirsdóttur, sem leikur 18 holur nær daglega, hlýtur að eiga skilningsríka fjölskyldu eða eru þau líka á kafi í golfinu?

„Já sko, elsti sonur minn var mikið í golfi en nú í seinni tíð fer meiri tími hjá honum í veiði. Maðurinn minn hefur líka dregið verulega úr sinni ástundun en hann hefur í staðinn verið duglegur að draga pokann fyrir mig. Honum finnst það bara fínt og þannig fáum við mikla samveru,“ segir Þórdís Geirsdóttir, handhafi Íslandsmeistaratitils kvenna, 50 ára og eldri, frá árinu 2015 til ársins 2022.

Það verður gaman að fylgjast með gömlu kempunni Þórdísi á Íslandsmótinu í Eyjum í ágúst og hver veit nema hún slái draumahöggið á 17. holu?