Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Fréttir

„Svekkjandi að fá svona bakslag“ - meiðsli hrjáðu Bjarka í lokamótinu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 19. nóvember 2022 kl. 05:46

„Svekkjandi að fá svona bakslag“ - meiðsli hrjáðu Bjarka í lokamótinu

„Það var virkilega svekkjandi að vera kominn í virkilega góðan gír og fá svona bakslag en þetta er allt lærdómur og fer í reynslubankann,“ segir Borgnesingurinn Bjarki Pétursson, en hann lék á lokaúrtökumótinu á Spáni eftir að hafa farið í gegnum úrtökumót 1 og 2 fyrr í haust. Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék á lokaúrtökumótinu sem kunnugt er og tryggði sér þátttökurétt á DP Evrópumótaröðinni.  

Bjarka gekk afleitlega á lokaúrtökumótinu eftir að hafa staðið sig mjög vel á stigum 1 og 2, skömmu áður. Hann endaði með neðstu mönnum og endaði á 21 höggi yfir pari en í mótunum á undan lék hann stöðugt og mjög gott golf og var vel undir pari.

Hvað gerðist í lokaúrtökumótinu?

„Líkaminn hélt ekki og leikurinn í kjölfarið. Ég var búinn að vera tæpur í baki og úlnlið eftir æfingar og keppni í haust en þessir þættir gáfu sig hreinlega. Í kjölfarið komu mistök í golfleiknum sem ég hef ekki verið að díla við að undanförnu.“

Þetta hlýtur að vera svekkjandi?

 „Já, þetta var virkilega svekkjandi að vera komin á frábæran stað með leikinn og fá svona bakslag. Oft er mesti lærdómurinn tekin úr erfiðustu vikunum og því er ekki hægt annað en að horfa til baka og meta hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.“

Hver er þín staða eftir þetta, hvaða þátttökurétt ertu kominn með 2023?

„Ég er kominn í „categoriu“ eða flokk 15 fyrir næsta ár sem gefur mér nokkur tækifæri á Áskorendamótaröðinni en ég hef fengið nokkur mót þar. Þau verða líklega fleiri á næsta ári.“

Guðmundur Ágúst náði takmarkinu sem þið eru nokkrir að keppast að?

„Frábært hjá Gumma að klára þetta. Þetta ætti að opna nýjar víddir í íslensku golfi,“ sagði Bjarki Pétursson sem hefur verið að reyna fyrir sér í atvinnumennsku í golfi síðustu árin. Hann varð Íslandsmeistari í golfi árið 2020.

Bjarki vildi fá að nota tækifærið og þakka Steypustöðinni og GG Verk fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum þetta ár. „Án þeirra hefði ég líklega ekki getað tekið þátt í úrtökumótinu.“