„Vildum færa kylfingum aðra upplifun í golfverslun“
Prósjoppan fagnar tveggja ára afmæli í dag. Magnús Lárusson og Páll Ingólfsson, eigendur verslunarinnar, ræða golfið og reksturinn.
„Markmið okkar frá upphafi var að búa til eitthvað alveg nýtt og ferskt. Okkur fannst ekki endilega vera vöntun á annarri golfverslun svipaðri þeim sem voru fyrir. Við vildum færa kylfingum aðra upplifun í golfverslun,“ segir Magnús Lárusson, annar eigenda Prósjoppunnar í Síðumúla.
Prósjoppan fagnar tveggja ára afmæli í dag en á þessum degi árið 2020 opnuðu vinirnir Magnús Lárusson og Páll Ingólfsson dyrnar fyrir kylfingum í Síðumúla 33. Vefverslunin prosjoppan.is fór í loftið 5. maí en rúmum tveimur vikum síðar var glæsileg verslunin opnuð með pompi og prakt.
Prósjoppan er sannarlega glæsileg verslun og þar er greinilega mikið lagt upp úr bæði hönnun á innréttingum og framsetningu á vörum. Kylfingur leit við á dögunum og ræddi golfið og reksturinn við vinina, viðskiptafélagana og eigendur Prósjoppunnar, þá Magnús Lárusson og Pál Ingólfsson.
Hugmyndin um að opna verslunina varð til í lok árs 2019, þegar Magnúsi fannst vanta nýja söluleið fyrir bæði FootJoy og Titleist vörurnar en á þeim tíma var FootJoy í miklum vexti og Titleist hafði ekki verið sinnt með þeim hætti sem Magnúsi fannst sjálfum að ætti að gera, en hann var starfandi vörumerkjastjóri fyrir vörumerkin tvö, á þeim tíma hjá ÍSAM.
„Titleist er auðvitað fremst í flokki um allan heim og er algjört gæðamerki og FootJoy var í slíkum vexti að það þurfti að finna því merki nýjar leiðir. Þannig varð þessi hugmynd til, að stökkva út í djúpu laugina og veita þessum vörumerkjum þetta mikla brautargengi. Ég fékk Pál Ingólfsson, vin minn til liðs við mig og við bara kýldum á þetta. Okkur fannst vera pláss á markaðnum hér heima fyrir aðgengilega vefverslun með golfvörur sem hafði fleiri myndir og annað sem skiptir fólk máli, sér í lagi fólk sem hefur ekki tök á að koma á staðinn. Okkur fannst ekki síður vera pláss fyrir sérverslun með þessar hágæðavörur,“ segir Magnús.
„Við erum í góðu samstarfi við ÍSAM og kaupum alla Titleist og FootJoy vöru í gegnum þá. Það samstarf hefur gengið virkilega vel. Upphaflega var lagt upp með að vera sérverslun fyrir þessi vörumerki og vera frekar með gott framboð af vörum frá þeim en að dreifa framboðinu á fleiri merki. Við höfum síðar bætt við þremur vörumerkjum og erum opnir fyrir þeim tækifærum sem okkur finnst passa inn í hugmyndafræði Prósjoppunnar,“ segir Magnús en auk Titleist og FootJoy er Prósjoppan með vörur frá Motocaddy og Perfect Practice auk hins sænska fatamerkis Macade sem Magnús segir hafa sprungið út hér á landi síðan Prósjoppan tók það inn á síðasta ári.
„Macade framleiðir öðruvísi golffatnað og þar sem einnig er um að ræða gæðavöru, smellpassaði Macade inn í hugmyndafræði okkar. Þau hjá Macade leggja upp með að hanna golffatnað sem þrýstir aðeins á og fer jafnvel út fyrir kassa hins hefðbundna í golffatnaði. Fólk er mjög hrifið af vörunum frá Macade og við erum m.a. að fá hér inn viðskiptavini sem nota Macade fatnað í vinnu og fleira. Þetta eru afskaplega þægileg föt og mjög vönduð,“ segir Magnús.
Nú hafið þið boðið upp á mælingar, eru kylfingar almennt að hugsa um mælingar þegar kemur að því að endurnýja græjurnar?
„Já, þeir sem eru í einhverjum kylfuhugleiðingum, spyrja strax hvort við bjóðum upp á mælingu. Fyrsta spurningin er ekki hvort við eigum kylfurnar til heldur hvort við bjóðum upp á mælingu. Við viljum veita þjónustu í mælingum á pari við þá þjónustu sem Titleist veita annars staðar. Við höfum hug á að vera með alls kyns nýjungar eins og boltamælingar og annað. Við getum, sem heimili Titleist hér á landi, boðið upp á alls kyns nýjungar í þjónustu – eitthvað öðruvísi og eitthvað ferskt. Einnig stefnum við á að opna hér verkstæði,“ segir Magnús.
Hver sér um mælingarnar í Prósjoppunni?
„Magnús hefur sjálfur séð um mælingarnar hjá okkur en hann er eins og flestir vita mjög reynslumikill afrekskylfingur. Þá lærði Maggi að mæla af Bigga „Keisara“ Björns“ sem er auðvitað algjör gúrú í þessu fagi. Fólk þarf að geta treyst því að það sé kunnáttufólk að sjá um svona mælingu. Það hefur verið mikil ánægja hjá okkar viðskiptavinum með Magga og þjónustuna sem hann veitir,“ segir Páll.

Hafið þið fengið góðar viðtökur hjá kylfingum á þessum fyrstu tveimur starfsárum Prósjoppunnar?
„Já, það er óhætt að segja að viðtökur hafi verið framar vonum. Við lögðum í raun ekki upp með að vera komnir á þann stað sem við erum þó komnir á í dag á þetta stuttum tíma. Vissulega höfum við notið góðs af því ástandi sem skapaðist hér á landi í Covid. Verslun færðist mikið til hingað heim og svo varð einnig algjör sprenging í golfinu á Íslandi. Þá hefur orðspor okkar augljóslega spurst út,“ segir Magnús.
„Við hvetjum að sjálfsögðu alla kylfinga til að koma í Prósjoppuna. Þar leggjum við mikið upp úr góðri og faglegri ráðgjöf og fyrsta flokks þjónustu - verið velkomin,“ segja þeir félagar Magnús Lárusson og Páll Ingólfsson, eigendur Prósjoppunnar að lokum.