Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Aftur gaf Woods eftir á seinni níu
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 14. febrúar 2020 kl. 22:09

Aftur gaf Woods eftir á seinni níu

Tiger Woods komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Genesis Inviational mótinu sem haldið er á PGA mótaröðinni. Woods er gestgjafi mótsins en það fer fram á Riviera golfvellinum í Los Angeles. Woods lék í dag annan hring mótsins á 2 höggum yfir pari.

Woods hóf leik á 10. teig og fékk sinn fyrsta fugl strax á þeirri holu. Fyrstu mistökin komu hins vegar á 15. holu eftir að Woods hafði slegið upphafshögg sitt á miðja braut. Woods endaði með tvöfaldan skolla á holunni eftir vandræði í kringum flötina en hann vann höggin til baka með fuglum á 17. og 1. holu.

Þegar Woods var kominn á þriðja teig (hans 12. holu) var Bandaríkjamaðurinn á höggi undir pari á hringnum og á þremur höggum undir pari í mótinu. Á þeim tímapunkti var hann á meðal 20 efstu í mótinu og einungis 4 höggum frá efsta manni. Því miður fyrir hann endaði Woods daginn á þremur skollum á síðustu 7 holum dagsins og er í 45. sæti þegar fréttin er skrifuð.


Skorkort Woods á öðrum hringnum. Hann hóf leik á 10. teig.

Á fyrsta hringnum fataðist Woods einnig flugið þegar hann var á fjórum höggum undir pari á fyrri níu og tveimur höggum yfir pari á seinni.


Skorkort Woods á fyrsta hringnum.

Ekki hafa allir kylfingar lokið leik á öðrum keppnisdegi mótsins en þrátt fyrir það er ljóst að Woods er öruggur í gegnum niðurskurðinn. Hann þarf hins vegar á frábærum hring að halda á laugardaginn til þess að blanda sér í baráttu um sigur í mótinu.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.