Áhugakylfingur lék á 57 höggum á Dogwood Invitational
Hinn 20 ára gamli Alex Ross lék ótrúlegt golf á Druid Hill golfvellinum í Atlanta á dögunum þegar hann kom inn á 57 höggum eða fimmtán höggum undir pari.
Ross lék fyrri níu holurnar á vellinum á 30 höggum eða 6 höggum undir pari. Þá tóku við 9 holur sem hann lék á 9 höggum undir pari en hann fékk alls sjö fugla og einn örn á þeim kafla.
Það sem gerir afrek Ross enn áhugaverðara er sú staðreynd að hann lék 36 holur þennan keppnisdag og spilaði á 73 höggum fyrr um daginn. Því bætti hann sig um 16 högg milli hringja.
Ross var á meðal keppenda á Dogwood Invitational mótinu sem er nokkuð sterkt áhugamannamót. Meðal keppenda undanfarin ár í mótinu eru PGA sigurvegararnir Webb Simpson og Brian Harman svo einhver nöfn séu nefnd.
Ross endaði í 11. sæti í mótinu eftir að hafa leikið hringina fjóra á 75, 73, 57 og 70 höggum.