Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Andri heldur toppsætinu á Spáni
Andri Þór Björnsson
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 12. febrúar 2020 kl. 17:00

Andri heldur toppsætinu á Spáni

Annar hringur á Hacienda del Alamo Open mótinu var leikinn á Spáni í dag. Andri Þór Björnsson er áfram í forystu en deilir nú efsta sætinu með Aydan Verdonk frá Hollandi. Bjarki Pétursson féll niður um eitt sæti í dag og situr nú jafn í 3. sæti. Fimm Íslendingar eru á meðal efstu 11 kylfinganna á mótinu.

Andri Þór lék hringinn í dag á tveimur höggum yfir pari og er því samtals á fimm höggum undir pari. Á hringnum fékk hann þrjá fugla, fimm skolla og restin pör. Bjarki lék á parinu í dag og er því áfram á fjórum höggum undir pari, aðeins einu höggi á eftir Andra og Aydan. Á hringnum í dag fékk Bjarki tvo fugla, tvo skolla og restin pör. 


Bjarki Pétursson

Hákon Örn Magnússon og Tómas Eiríksson Hjaltested léku vel í dag og komu í hús á tveimur höggum undir pari. Tómas fékk á hringnum átta fugla, tvo skolla og tvo tvöfalda skolla á meðan Hákon fékk fjóra fugla, tvo skolla og restin pör. Þeir fóru báðir upp um 11 sæti í dag og sitja jafnir í 11. sæti. 


Tómas Eiríksson Hjaltested


Hákon Örn Magnússon

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir situr einnig í 11. sæti en hún lék á parinu í dag. Hún var um tíma komin á þrjú högg undir par en skolli á 16. holu og tvöfaldur skolli á 18. holu komu henni aftur niður á parið. Sjö íslenskir kylfingar til viðbótar keppa einnig á mótinu og hafa þeir allir leikið á parinu eða yfir. 


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir

Hér má fylgjast með stöðunni í mótinu.