Fréttir

Andri og Bjarki í forystu á Spáni
Andri Þór Björnsson
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 11. febrúar 2020 kl. 14:55

Andri og Bjarki í forystu á Spáni

Tólf íslenskir kylfingar eru á meðal þátttakenda á Hacienda del Alamo Open mótinu sem fram fer á Spáni um þessar mundir. Mótið hófst í dag og verða leiknir þrír hringir. Þeir Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson eru á meðal keppenda og byrjuðu mótið mjög vel en þeir sitja í efstu tveimur sætunum.

Andri lék frábærlega í dag og kom í hús á 7 höggum undir pari. Á hringnum fékk hann 9 fugla, tvo skolla og restin pör og er kominn með þriggja högga forystu eftir fyrsta hring. Bjarki er jafn í 2. sæti eftir daginn en hann lék á fjórum höggum undir pari í dag. Líkt og Andri var hann í fuglastuði og fékk 7 fugla á hringnum en þrjá skolla á móti og endaði því á fjórum höggum undir pari eins og áður sagði. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er einnig á meðal keppenda en bæði karlar og konur mega taka þátt í mótinu. Ólafía lék hringinn í dag á einu höggi undir pari og er jöfn í 10. sæti. Það eru svo 9 aðrir íslenskir keppendur en þeir léku allir yfir pari í dag.

Hér má fylgjast með stöðunni í mótinu.


Bjarki Pétursson.


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.