Fréttir

Atvinnukylfuberi lék hring á úrtökumóti á 131 höggi yfir pari
Trey Bilardello
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 17. júlí 2019 kl. 15:00

Atvinnukylfuberi lék hring á úrtökumóti á 131 höggi yfir pari

Í byrjun vikunnar fóru að berast af því fréttir á samfélagsmiðlum að kylfingur hafi leikið á 194 höggum, eða 123 höggum yfir pari, á úrtökumóti fyrir US Amateur mótið. Þessar tölur eru enn ótrúlegri fyrir þær sakir að hámarks forgjöf til að leika í mótinu var 2,4.

Þegar var var að grennslast nánar fyrir um málið kom í ljós að þetta skor var vissulega rangt. En það var of lágt. Kylfingurinn lék í rauninni á 202 höggum, eða 131 höggi yfir pari. Í ljós kom að galli var í kerfinu sem skráði skorið á mótinu sem olli því að ekki var hægt að setja inn hærra skor en 19 högg á hverri holu. Á mánudagskvöld birti Justin Hueber mynd af skorkortinu á Twitter og kom þá í ljós að kylfingurinn sem um ræðir var Trey Bilardello. 

Bilardello er kylfuberi á PGA mótaröðinni og hefur hann eytt stærstum hluta af tímabili þessa árs sem kylfuberi fyrir Matt Every. Samkvæmt nýjustu skráningum er Bilardello með 2,2 í forgjöf og því afskaplega ótrúlegt að hann leiki einn hring á svona háu skori.  

Fulltrúi bandaríska golfsambandsins (USGA) tjáði fjölmiðlum að skorkortinu hafi verið skilað inn og það undirritað en á þriðjudag, eftir að mótinu var lokið, var Bilardello dæmdur úr leik vegna ósæmilegrar hegðunar. Í ljós kom að Bilardello hafði viljandi slegið misheppnuð högg og meira að segja púttað í átt frá holunni til að fjölga höggunum. Eftir 9 holur á Bilardello að hafa sagt að hann vildi skila inn hæsta skori í sögu bandaríska golfsambandsins. Þrátt fyrir allan þennan högga fjölda náði Bilardello að halda réttum leikhraða sem verður að teljast nokkuð gott afrek.