Fréttir

Berglind og Guðrún búnar með síðasta mót tímabilsins
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 6. október 2019 kl. 12:40

Berglind og Guðrún búnar með síðasta mót tímabilsins

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK og Berglind Björnsdóttir GR léku í dag lokahringinn á tímabilinu á LET Access mótaröðinni. Stelpurnar voru báðar með á móti helgarinnar, Road to la Large Final, sem haldið var í Frakklandi.

Guðrún Brá lék vel í mótinu og endaði í 19. sæti á 3 höggum yfir pari í heildina. Guðrún var í 13. sæti fyrir lokahringinn en hún kom inn á parinu í dag. Guðrún hóf leik á 10. teig og var á tveimur höggum undir pari áður en hún fékk tvöfaldan skolla á 18. holu. Á seinni níu fékk hún svo einn fugl og einn skolla og kláraði hringinn á pari.

Berglind átti sinn besta hring í mótinu í dag þegar hún kom inn á tveimur höggum yfir pari. Samtals lék Berglind á 12 höggum yfir pari í heildina og endaði í 51. sæti.

Líkt og áður hefur komið fram er þetta síðasta mót á tímabilinu á LET Access mótaröðinni. Fimm efstu kylfingarnir á stigalistanum að mótinu loknu öðlast þátttökurétt á Evrópumótaröðinni en það kemur í ljós þegar listinn verður uppfærður seinna í dag. Ljóst er að Guðrún og Berglind komust ekki í topp-5 en Guðrún Brá mun reyna við Evrópumótaröðina seinna í haust í úrtökumóti.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.