Birgir vann sig upp um 13 sæti í dag - Sex höggum frá lausu sæti
Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG vann sig upp um 13 sæti á öðrum hring í úrtökumótinu á öðru stigi sem fram fer á Spáni. Hann lék á 71 höggi í dag eða einu höggi undir pari og bætti sig um sex högg eftir að hafa leikið á 77 höggum í gær.
Birgir er í 59. sæti í mótinu á samtals fjórum höggum yfir pari en alls taka 74 kylfingar þátt í mótinu. Skor var öllu hærra í dag en það var í gær sem hjálpar Birgi en hann þarf að leika frábærlega á næstu tveimur hringjum til að eiga möguleika á sæti í lokamótinu.
Englendingurinn Sam Hutsby er efstur í mótinu á níu höggum undir pari. Telja má líklegt að um 16-20 efstu sætin gefi öruggt sæti í lokamótið seinna í desember. Birgir er því sex höggum frá lausu sæti eins og staðan er núna og þarf því helst á frábærum hring á morgun að halda. Frammistaða hans í dag gefur allavega góð fyrirheit enda tapaði hann ekki höggi á hringnum.