Fréttir

Björgvin Þorsteinsson látinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 14. október 2021 kl. 15:38

Björgvin Þorsteinsson látinn

Björgvin Þorsteinsson, einn mesti afrekskylfingur Íslands lést í nótt, 68 ára að aldri. Björgvin glímdi við krabbamein síðustu ár en lét það ekki á sig fá og lék golf fram á síðasta dag.

Björgvin var sexfaldur Íslandsmeistari í golfi og vann sinn síðasta titil af mörgum í sumar en þá sigraði hann í flokki 65 ára og eldri í Vestmannaeyjum. 

Margeir golfkennsla
Margeir golfkennsla

Björgvin er fæddur á Akureyri 1953 og leið hans lá fljótt út á gamla golfvöllinn þar í bæ með eina kylfu í hönd með vinum sínum. Björgvin náði fljótt frábærum árangri í íþróttinni en hann þótti vera með frábæra golfsveiflu. 

Hann tók þátt í sínu 56. Íslandsmóti í höggleik einmitt í sínum gömlu slóðum, á Jaðarsvelli á Akureyri. Þá var í fyrsta skipti leikið um Björgvinsskálina en það er verðlaunagripur hans frá fyrsta sigri hans á Íslandsmótinu í meistaraflokki árið 1971. Björgvinsskálin var veitt þeim sem var besti áhugamaðurinn á mótinu í sumar. Björgvin lék á 55 mótum í röð frá árinu 1964 til 2018, lék ekki næstu tvö ár en mætti til leiks í heimabænum í sumar. 

Björgvin keppti alla tíð mjög mikið eins og sjá má á þátttökufjölda hans í Íslandsmótinu. Þá er kappinn í efsta sæti yfir þá sem hafa farið holu í höggi hér á landi, alls ellefu sinnum. Það þótti verulega fréttnæmt þegar hann náði tveimur draumahöggi tvö daga í röð á hans gamla heimavelli, Jaðri árið 2010.  

Björgvin var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ 9. október sl. Hann sinnti margvíslegum störfum fyrir golf- og íþróttahreyfinguna, sat m.a. Í áfrýjunardómstól ÍSÍ, var í stjórn GA um tíma og í stjórn GSÍ 1998-2002. 

Björgvin lætur eftir sig eiginkonuna Jónu Dóru Kristinsdóttur og stúpsoninn Kristin Geir og dótturina Steinu Rósu frá fyrra hjónabandi. 

Meðfylgjandi eru tvö sjónvarpsviðtöl við Björgvin á kylfingi.is. Annað frá árinu 2013 á Korpu þegar hann lék í sínu 50. móti í röð og hitt fjórum árum síðar á Hvaleyrinni. Þar segir hann að fyrsti sigurinn á Íslandsmóti 1971 sé eftirminnilegast á ferlinum og hann styrkur þegar hann var bestur hafi verið járnahöggin.

Björgvin á Íslandsmótinu í Leiru 2011. Til hægri má sjá Magnús Guðmundsson, margfaldan Íslandsmeistara en hann þjálfaði Björgvin á Akureyri þegar sá síðarnefndi var ungur að árum.

Hér er Björgvin með Viðari bróður sínum á fyrsta teig í Leirunni.

Björgvin á flöt á Hvaleyrinni þegar hann lék á sínum 50. Íslandsmóti í röð.

Þessi hringur Björgvins þykir einn af betri golfhringjum sem íslenskur kylfingur hefur spilað. Þetta var á Jaðarsvelli 1976. Þá var fátítt að kylfingar léku undir pari.