Fréttir

Dagbjartur lék á 28 höggum á Ánni
Dagbjartur Sigurbrandsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 13. júlí 2020 kl. 08:00

Dagbjartur lék á 28 höggum á Ánni

Meistaramóti Golfklúbbs Reykjavíkur lauk á laugardaginn og voru það þau Böðvar Bragi Pálsson og Ragnhildur Kristinsdóttir sem fögnuðu sigri og eru klúbbmeistarar GR 2020.

Á meðal keppenda í meistaraflokki karla var Dagbjartur Sigurbrandsson sem hefur gert góða hluti á GSÍ mótaröðinni undanfarin ár. Dagbjartur endaði jafn í 8. sæti í mótinu á 290 höggum en hann átti magnaðan endasprett í mótinu.

Dagbjartur gerði sér lítið fyrir og lék síðustu níu holur mótsins á 28 höggum eða sjö höggum undir pari en það var á Ánni á Korpúlfsstaðavelli. Fyrsti fuglinn kom á 10. holu en hann endaði svo daginn á sex fuglum í röð á holum 13-18. Athygli vekur að hann fékk einungis par á auðveldustu holu seinni hlutans sem er 11. holan.

Dagbjartur hafði leikið fyrri níu á 41 höggi og kom því inn á 69 höggum á lokahringnum, ótrúleg sveifla.

Hér fyrir neðan má sjá skorkortið hjá Dagbjarti í mótinu.

* 16. holan á Korpu er par 4 hola á hvítum teigum en er skráð par 5 á golfbox.