Fréttir

Dagbjartur og Ragnhildur stigameistarar á Mótaröð þeirra bestu
Ragnhildur Kristinsdóttir og Dagbjartur Sigurbrandsson.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
mánudaginn 12. ágúst 2019 kl. 13:15

Dagbjartur og Ragnhildur stigameistarar á Mótaröð þeirra bestu

Lokahnykkur Mótaröð þeirra bestu fór fram í gær þegar Íslandsmótið í höggleik kláraðist. Það voru þau Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir sem fögnuðu sigri í mótinu. 

Að móti loknu voru úrslit stigalistans kunngerð og voru það þau Dagbjartur Sigurbrandsson og Ragnhildur Kristinsdóttir sem stóðu upp sem stigameistarar í karla- og kvennaflokki. Fyrst var kepp um stigameistaratitilinn árið 1989 og er þetta því í 31. sinn sem keppt er um titilinn.

Dagbjartur vann tvö mót af fimm á mótaröðinni en hann byrjaði sumarið á að sigra fyrstu tvö mótin. Þetta var í fyrsta skiptið sem Dagbjartur fagnar stigameistaratitlinum.

Ragnhildur fagnaði einnig sigri í tveimur mótum og er þetta í annað skiptið sem Ragnhildur vinnur stigameistaratitilinn.

Rúnar Arnórsson úr GK varð í öðru sæti en hann varð Íslandsmeistari í holukeppni í sumar. Ólafur Björn Loftsson úr GKG varð í þriðja sæti. Dagbjartur var vant við látinn í gær þar sem hann var á leið í flug til að leika á British Boys mótinu sem hefst nú á miðvikudaginn. Móðir hans, Rakel Magnúsdóttir, var mætt í hans stað að taka á móti verðlaununum.

Saga Traustadóttir úr GR varð í öðru sæti í kvennaflokki en hún fagnaði sigri á Íslandsmótinu í holukeppni fyrr á árinu. Hulda Clara Gestsdóttir verð í þriðja sæti.

Lokastöðu stigalistans má nálgast hérna.