Fréttir

Davis Love III þriðji elsti til að vinna PGA mót
Mánudagur 24. ágúst 2015 kl. 00:11

Davis Love III þriðji elsti til að vinna PGA mót

Davis Love III sigraði á Wyndham Championship og varð um leið þriðji elsti kylfingurinn til að sigra á PGA mótaröðinni. Hann er 51 árs, 4 mánaða og 10 daga gamall. Tímabilið hjá Tiger Woods er aftur á móti búið.

Love spilaði á 6 undir pari eða 64 höggum í dag, einu höggi betur en Jason Gore sem endaði einn í 2. sæti. Samtals var hann á 17 höggum undir pari.

Love var í 186. sæti á FedEx stigalistanum fyrir mótið en með sigrinum komst hann í 76. sætið og því öruggur inn í úrslitakeppnina sem hefst strax í næstu viku með Barclays mótinu.

Tiger fór rólega af stað og var á pari eftir tíu holur. Á þeirri elleftu fékk hann þrefaldan skolla og skolla strax þar á eftir. Þá reif hann sig í gang og fékk þrjá fugla í röð og einnig fugl á lokaholunni. Það má því segja að þessar tvær holur sem kostuðu hann fjögur högg, sama og munurinn var á honum og efsta manni, hafi verið honum dýrkeyptar.

Love var að vinna sinn 21. titil á PGA mótaröðinni og þann þriðja í Grennsboro, hinir tveir komu árin 1992 og 2006.

Scott Brown (68), Charl Schwartzel (66) og Paul Casey (67) komu svo jafnir í 3. sæti, tveimur höggum á eftir Love.

Sigurvegari síðasta árs, Camilo Villegas, endaði á 10 undir pari sem dugði honum til að koma sér úr 129. sætinu upp í það 123ja. Topp 125 komast á Barclays mótið.

Scott Langley, sem var númer 126 á listanum fór niður um eitt sæti eftir að hafa fengið skolla á fjórum af síðustu sex holunum.

Staðan