Fréttir

DeChambeau stefnir á að dræva inn á flöt á par 5 holu
Bryson DeChambeau.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 11. febrúar 2021 kl. 18:27

DeChambeau stefnir á að dræva inn á flöt á par 5 holu

Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau hefur gefið það út að hann ætlar sér að reyna að slá alla leið inn á flöt í upphafshöggi sínu á 6. holu Bay Hill vallarins ef hann spilar í mótinu í ár.

Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að 6. holan á vellinum er par 5 hola og er 540 metra löng samkvæmt skorkorti klúbbsins. Bein lína yfir vatnið og inn á flöt er þó ekki nema 310 metra löng og því ætti DeChambeau alveg að eiga möguleika á að komast þangað í einu höggi.

Arnold Palmer Invitational mótið er haldið á vellinum 4.-7. mars og hefur Englendingurinn Tyrrell Hatton titil að verja. Aðspurður um ummæli DeChambeau sagði Hatton það yrði ansi áhugavert.

„Það þyrfti allavega mikið til,“ sagði Hatton og hló. „Ég veit að ég væri ekki nálægt því en ef hann getur þetta og nær þessu í móti... vel gert hjá honum.“

Árið 1998 spilaði John Daly 6. holuna á 18 höggum en hann ætlaði þá að slá beint inn á flöt eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.