Fréttir

Dýr mistök hjá Morikawa á lokaholunni
Collin Morikawa. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 13. janúar 2020 kl. 18:48

Dýr mistök hjá Morikawa á lokaholunni

Collin Morikawa var á meðal keppenda á Sony Open mótinu sem fór fram um helgina á PGA mótaröðinni í golfi.

Morikawa var í forystu eftir fyrsta hringinn en fataðist aðeins flugið um helgina og endaði í 21. sæti.

Morikawa gerði dýrkeypt mistök á lokaholu mótsins þegar hann átti stutt pútt fyrir fugli en í stað þess að setja niður rúmlega eins metra pútt þrípúttaði hann og fékk skolla.

Með fugli hefði Morikawa endað mótið á 7 undir pari og jafn í 9. sæti og fengið fyrir það 173.250 dollara. Þess í stað endaði Bandaríkjamaðurinn ungi í 21. sæti og fékk 64.350 dollara og tapaði því tæplega 13,5 milljónum íslenskra króna á þessum mistökum.

Að því sögðu hefur hinn 22 ára gamli Morikawa þénað 2,3 milljónir dollara í þeim 15 mótum sem hann hefur tekið þátt í frá því að hann gerðist atvinnumaður í fyrra.