Public deli
Public deli

Fréttir

Feðgin klúbbmeistarar á Selfossi
Klúbbmeistarar GOS 2024, feðginin Hlynur Geir Hjartarson og Katrín Embla Hlynsdóttir
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 8. júlí 2024 kl. 17:08

Feðgin klúbbmeistarar á Selfossi

„Þetta er í fimmtánda sinn sem ég fagna sigri í meistaramóti Golfklúbbs Selfoss,“ segir kylfingurinn Hlynur Geir Hjartarson en hann varð klúbbmeistari og yngri dóttir hans, Katrín Embla, varð klúbbmeistari kvenna. Hlynur sem vakti verðskuldaða athygli á síðasta Íslandsmóti þegar hann var í baráttu fram á lokaholu fyrir að verða Íslandsmeistari en þurfti að láta í minni pokann fyrir Loga Sigurðssyni, er skráður til leiks á Íslandsmótið sem hefst í næstu viku. Ekki frekar en í fyrra eða nokkurn tíma, mætir hann með væntingar í mótið, hann hugsar einfaldlega alltaf bara um næsta högg.

Tveir kylfingar voru fjarverandi vegna verkefna með landsliðum Íslands, Aron Emil Gunnarsson og Heiðrún Anna Hlynsdóttir, eldri systir Katrínar Emblu, voru bæði í Póllandi en Hlynur sagði að fjarvera Arons hefði ekki skipt neinu máli því hann var hvort sem er sigurvegari vegna þess að hann hefur þjálfað alla efnilegustu og bestu kylfinga Selfyssinga.

„Ég byrjaði mjög vel, spilaði á 65 á fyrsta degi og náði góðri forystu og endaði á að vinna með sjö höggum. Það hefði klárlega verið skemmtilegra að hafa Aron Emil með en þar sem ég þjálfaði hann og þessa stráka sem ég var að spila á móti, var ég í algerri „win, win“- stöðu. Katrín Embla, yngri dóttir mín, stóð sig mjög vel og vann sinn þriðja titil en Heiðrún Anna systir hennar var að keppa með landsliðinu og gat því ekki verið með. Þetta var mjög vel heppnað meistaramót og kannski er það eftirminnilegasta frá því að kylfingurinn Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson sem er með 10,3 í forgjöf og kenndur er við Hlemmiskeiði, náði að skora Albatros. Það er mjög sjaldgæft að ná að skora par 5 holu á tveimur höggum og þó svo að sumir hafi náð að fara holu í höggi á par 4 holu þá er hægt að nota tí, á par 5 braut þar sem legan getur verið alla vega, er magnað að ná Albatrosi.“

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Albatrosinn var tekinn tali.

„Þetta gerðist á þriðja keppnisdegi, á föstudeginum. Það var ágætis meðvindur og ég átti eftir 176 metra í pinnann, tók 8-járnið og smellhitti hann. Einn í hollinu vildi meina að þessi hefði líklega farið ofan í og ég sagði bara „yeah, right!“ Það hvarflaði ekki að mér að byrja á að kíkja ofan í holuna en svo varð ég auðvitað að gera það og neita ekki að það var ansi góð tilfinning að sjá kúluna þar. Þótt ótrúlegt megi virðast náði ég fugli á næstu holu en ákvað þá að ég þyrfti að eiga þessa kúlu og hætta ekki á að týna henni en það var eins og við manninn mælt, þá fór allt í skrúfuna! Ég náði ekki að blanda mér í baráttuna en eftir stendur að ég geri ráð fyrir að vinir mínir endurskíri mig í símanum sínum, Villi Albatros,“ sagði Albatrosinn Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson.

Hlynur Geir vakti verðskuldaða athygli á síðasta Íslandsmóti en þá náði sá gamli að blanda sér í toppbaráttuna með yngri og bestu kylfingum landsins. Hann leiddi eftir þrjá daga og var mjög nærri því að vinna Loga Sigurðsson, sem endaði með titilinn. Saga Hlyns sem golfara er í raun lygileg, hann byrjaði ekki fyrr en um tvítugsaldurinn að sveifla kylfu!

„Ég var í fótbolta á fullu þegar ég var yngri og byrjaði því ekki í golfi fyrr en um tvítugt. Ég fékk fyrst forgjöf og tók þátt í meistaramóti 1997, þá 21 árs gamall og varð klúbbmeistari í fyrsta sinn árið 1999. Það var gaman að keppa í Íslandsmótinu í fyrra á Oddinum, ég vissi að þessi völlur myndi henta mér vel því það þarf að leika staðsetningargolf. Hingað til hefur Leiran ekki hentað mér neitt sérstaklega vel en mér skilst að búið sé að gera völlinn erfiðari með því að þrengja brautir og hafa röffið þykkt, það þýðir því ekkert að lúðra 350 metra eitthvað út í bláinn og geta slegið þaðan. Ég hlakka til og mun mæta í þetta mót eins og öll önnur mót sem ég fer í, hugsa bara um næsta högg og spái ekki í neinu öðru. Ef ég næ að spila mitt besta golf mun ég hugsanlega geta blandað mér í baráttuna en ef mitt besta golf dugar ekki, er lítið sem ég get gert,“ sagði klúbbmeistari GOS, Hlynur Geir Hjartarson.

Frá vinstri; Leifur Viðarsson, formaður mótanefndar GOS, Heiðar Snær Bjarnason (3.sæti), sigurvegarinn Hlynur Geir Hjartarson, Arnór Ingi Hlíðdal (2. sæti) og formaður GOS, Páll Sveinsson
Frá vinstri; Leifur Viðarsson formaður mótanefndar GOS, Alexandra Eir Grétarsdóttir (3.sæti), sigurvegarinn Katrín Embla Hlynsdóttir, Erla Rún Kaaber, Páll Sveinsson, formaður GOS.
Verðlaunahafar á Meistaramóti GOS 2024.
Albatrosinn Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson með kúluna góðu.