Fréttir

Fín byrjun hjá Haraldi í Ástralíu
Haraldur keppir nú í Ástralíu á DP mótaröðinni, þeirri sterkustu í Evrópu. Mynd/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 23. nóvember 2023 kl. 09:33

Fín byrjun hjá Haraldi í Ástralíu

Haraldur Franklín Magnús lék fínt golf á fyrsta keppnisdegi á Royal Queensland golfvelinum í Brisbane í Ástralíu. Þetta er fyrsta mót nýs tímabils 2023-2024 á DP mótaröðinni en Íslendingurinn fékk óvæntan þátttökurétt á því strax eftir lokaúrtökumótið á Spáni í síðustu viku. Haraldur lék á einu höggi undir pari og er jafn í 51. sæti af rúmlega 150 þátttakendum.

Haddi hóf leik á 10. braut og fékk þrjá fugla á fyrstu sex brautunum. Síðan kom skoli á 18. brautinni en okkar maður mætti með fugl í kjölfarið á 1. holu. Hann tapaði síðan tveimur höggum á 3. brautinni en lék restina á pari. Niðurstaðan 70 högg, eða einn undir pari. Fín byrjun.

Haraldur lauk sem fyrr segir leik á lokaúrtökumótinu í síðustu viku og endaði í 77. sæti. Fyrsta markmiðið þar var að komast í gegnum niðurskurðinn sem hann og náði og sá árangur gefur Haraldi fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni en hann fær líka nokkur mót á DP mótaröðinni og þetta mót í Ástralíu er eitt af þeim.

„Ég er bara rosaspenntur að hafa komist inn. Fékk boð í mótið á síðustu stundu svo ég bara rauk af stað. Það er smá þreyta í mér en þetta verður bara stuð. Ég var á allt öðrum stað fyrir mánuði, nú er bara njóta og spila og reyna sækja verðlaunafé. Ég hlakka til og er mjög spenntur að fá að spila á DP mótaröðinni,“ sagði Haraldur í spjalli við kylfing.is áður en hann flaug til Ástralíu fyrir nokkrum dögum.

Staðan eftir fyrsta hring.

Það eru nokkur stór nöfn meðal keppenda í Ástralíu. Hér má m.a. Sjá Pólverjann Adrian Meronk, Ástralana Min Woo Lee og Adam Scott og Skotann Bob Mcintyre á 10. teig.

Adam Scott átti flott pútt á 17. flöt.