Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Fitzpatrick: Ég er þar sem maður vill vera
Matt Fitzpatrick. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2019 kl. 21:30

Fitzpatrick: Ég er þar sem maður vill vera

Matt Fitzpatrick er með eins höggs forystu þegar HSBC heimsmótið í Kína er hálfnað. Fitzpatrick hefur leikið fyrstu tvo hringi mótsins á 11 höggum undir pari og er höggi á undan Rory McIlroy.

Hinn 25 ára gamli Fitzpatrick stefnir á sigur um helgina en hann á enn eftir að sigra á þessu tímabili eftir að hafa unnið mót á hverju tímabili frá því hann komst í gegnum úrtökumótin árið 2014.

„Á seinni níu í dag púttaði ég frábærlega og hef ekki púttað betur í ár. Karginn er erfiður, flatirnar eru hraðar og mikill halli í þeim. Þetta var klárlega erfitt í dag,“ sagði Fitzpatrick eftir annan hringinn sem hann spilaði á 67 höggum.

„Ég er þar sem maður vill vera, á toppnum eftir tvo hringi. Augljóslega er betra að vera þar eftir fjóra hringi en þetta er góð byrjun á vikunni. Mér líður betur yfir mínum leik en í síðustu viku og vonandi get ég haldið þessu áfram um helgina.

Það er mjög mikilvægt að hitta brautirnar hérna því ef þú missir braut þá ertu annað hvort í erfiðri legu og þú þarft að lemja boltann áfram eða boltinn liggur vel og þú færð „flyer“. Það er lykilatriði að hitta brautirnar hér og ef maður heldur áfram að gera það kemur maður sér í fleiri færi.

Ég hef fengið að vera í þessari stöðu nokkrum sinnum í ár. Það er aðeins öðruvísi að vera í henni á Heimsmóti, það hefur meiri þýðingu fyrir okkur alla. Planið er samt eins. Enn að reyna að hitta brautir og flatir og það er lykillin hér, ef þú heldur þér úr karganum áttu góðan möguleika.“

Staða efstu manna á HSBC meistaramótinu:

1. 133 högg M Fitzpatrick (Eng) 66 67,
2. 134 högg R McIlroy (Nir) 67 67,
3. 135 högg X Schauffele (USA) 66 69, S Im (Kor) 66 69, A Scott (Aus) 66 69,
6. 136 högg L Haotong (Chn) 64 72, V Perez (Fra) 65 71,

Myndband af helstu tilþrifum Fitzpatrick á öðrum keppnisdeginum má sjá hér fyrir neðan: