Fréttir

Fjórir Íslendingar halda áfram á lokahringinn á Ecco mótaröðinni
Aron Bergsson. Ljósmynd: HGC GOLF
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 28. apríl 2022 kl. 21:53

Fjórir Íslendingar halda áfram á lokahringinn á Ecco mótaröðinni

Hinir níu eru úr leik

Öðrum hring lauk í dag á Bravo Tours Open á Ecco mótaröðinni (Nordic Golf League) en leikið er á Rømø strandvellinum á Suður-Jótlandi. Mótið er fyrsta mótið á mótaröðinni eftir að Golfstar Winter Series lauk en sá hluti mótaraðarinnar var leikinn á Spáni í febrúar og mars.

Aldrei hafa fleiri Íslendingar verið samankomnir á einu atvinnumannamóti en þeir voru alls 13 talsins á mótinu.

Fjórir okkar manna komust í gegnum niðurskurðinn en níu duttu út eftir annan keppnisdaginn í dag.

Daninn Frederik Birkelund er með tveggja högga forskot á landa sinn Oliver Percy-Smith. Hann er 8 höggum undir pari en hann lék báða hringina á 68 höggum.

Staðan á mótinu

Aron Bergsson, sem keppir fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð, er á besta skorinu af Íslendingunum eftir fyrstu tvo hringina en hann er á 3 höggum yfir pari vallarins og er sem stendur í 21.-29. sæti.

Skorkort Arons

Axel Bóasson, GK, situr sem stendur í 30.-41. sæti á 4 höggum yfir pari, sem og Elvar Már Kristinsson, GR.

Skorkort Axels
Skorkort Elvars Más

Hákon Örn Magnússon, GR, er á niðurskurðarlínunni og sleppur í gegn á 5 höggum yfir pari Rømø strandvallarins og situr sem stendur í 42.-47. sæti.

Skorkort Hákons Arnar

Andri Þór Björnsson, GR, sem var í 5.-9. sæti eftir fyrsta hring átti afleitan dag og kom í hús á 9 yfir pari. Hann var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Það voru þeir Bjarki Pétursson, GKG og Böðvar Bragi Pálsson einnig.

Skorkort Andra Þórs
Skorkort Bjarka
Skorkort Böðvars Braga

Aron Snær Júlíusson, GKG, sem byrjaði af miklum krafti á fyrsta hring en fataðist flugið, náði sér ekki á strik í dag og kom í hús á 5 höggum yfir pari. Hann var að lokum þremur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, lauk einnig leik á 8 höggum yfir pari vallarins.

Skorkort Arons Snæs
Skorkort Sigurðar Arnars

Gísli Sveinbergsson, GK, sem er að koma til baka eftir erfið meiðsli, var á 4 höggum yfir pari eftir fyrsta hring en náði sér ekki á strik í dag og kom í hús á 11 höggum yfir pari og lauk því leik á 15 höggum yfir pari vallarins. Hákon Harðarsson, sem keppir fyrir Royal Golf Club í Danmörku, lauk leik á sama skori og Gísli.

Skorkort Gísla
Skorkort Hákons

Þá var Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, einu höggi á eftir þeim Gísla og Hákoni en Gunnlaugur Árni, sem var nýlega krýndur fyrsti Landsmótsmeistarinn í golfhermum, verður 17 ára gamall síðar á árinu.

Skorkort Gunnlaugs Árna

Ragnar Már Garðarsson, GKG, sem lenti í töluverðum vandræðum á fyrsta hring, og var á 17 höggum yfir pari fyrir daginn í dag, gerði betur er hann kom í hús á 6 höggum yfir pari. Hann lýkur því leik á 23 höggum yfir pari vallarins.

Skorkort Ragnars Más

Kylfingur fylgist vel með íslenskum atvinnukylfingum.