Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Fowler á meðal þeirra sem hafa ekki tryggt sér sæti á Masters
Rickie Fowler.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 18. nóvember 2020 kl. 08:36

Fowler á meðal þeirra sem hafa ekki tryggt sér sæti á Masters

Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler hefur verið fastagestur á Masters mótinu frá árinu 2011 en það gæti breyst í apríl á næsta ári þegar mótið fer næst fram.

Þrátt fyrir að Masters mótið hafi klárast um helgina eru einungis fimm mánuðir þangað til það fer næst fram og styttist í að keppendalisti mótsins verði klár.

Til að mynda fá 50 efstu kylfingarnir á heimslistanum í lok ársins 2020 þátttökurétt og eru því kylfingar á borð við Fowler (48), Ian Poulter (47) og Lee Westwood (46) ekki búnir að tryggja sér þátttökurétt.

Takist Fowler ekki að halda sér í topp 50 á heimslistanum í lok árs er vonin þó ekki úti en 50 efstu á heimslistanum viku fyrir Masters mótið hljóta einnig þátttökurétt sem og sigurvegarar á PGA mótaröðinni þangað til.

Nú þegar hafa 73 kylfingar tryggt sér þátttökurétt á Masters mótinu í apríl á næsta ári. Hér fyrir neðan má sjá hvaða kylfingar eru á jaðrinum og þurfa á góðum árangri að halda næstu vikur og mánuði:

Lee Westwood (46. sæti heimslistans)
Ian Poulter (47. sæti)
Rickie Fowler (48. sæti)
Mackenzie Hughes (49. sæti)
Chez Reavie (50. sæti)
Kevin Streelman (51. sæti)
Erik Van Rooyen (52. sæti)
Matt Wallace (53. sæti)


Lee Westwood.