Fréttir

Gæs í pokanum hjá Haraldi Franklín
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 10. ágúst 2019 kl. 11:42

Gæs í pokanum hjá Haraldi Franklín

Það er mikilvægt að vera með gott nesti í golfpokanum í 4-5 klst. golfhring. Haraldur Franklín Magnús vildi breikka matseðilinn á hringnum og þá kom kylfusveinninn hans, Gísli Vilhjálmur Konráðsson, Villi, til sögunnar og mætti með grafna gæs.

„Hún er rosalega góð og fín í bland með samlokuáti og slíku þegar maður er í golfhring. Villi er fjölhæfur veiðimaður og frábær sjúkraþjálfari, ekki bara kylfusveinn,“ sagði Haraldur þegar blaðamaður kylfings.is hitti hann á öðrum hring á Íslandsmótinu í golfi í Grafarholti.

„Þessi gæs kemur úr Öxarfirði. Skotin og unnin af mér eftir uppskrift Úlfars sjónvarpskokks,“ sagði Villi kylfusveinn og gaf blaðamanni að smakka. Það þarf ekki að orðlengja það frekar en gæsin var mjög góð og verður áfram boðið upp á slíkt nesti þegar Haraldur Franklín freistar þess að vinna sinn annan Íslandsmeistaratitil í höggleik.

Haraldur slær á 18. teig í Grafarholtinu.