Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Glæsilegur Klettur í Mosfellsbæ
Klettur, ný íþróttamiðstöð GM séð frá 10. brautinni. kylfingur.is/pket.
Fimmtudagur 13. júlí 2017 kl. 12:49

Glæsilegur Klettur í Mosfellsbæ

Bylting í aðstöðu Golfklúbbs Mosfellsbæjar

Miklar breytingar hafa orðið á aðstöðu fyrir kylfinga í Mosfellsbæ en í sumar opnaði fyrsti áfangi nýrrar glæsilegrar íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Eftir nafnasamkeppni hlaut byggingin nafnið Klettur og er óhætt að segja að húsið standi eins og klettur upp úr hafinu á golfsvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll.
„Já, þetta er gjörbreyting á aðstöðu eftir bráðum þrjátíu ár í sögu klúbbsins. Nú getum við tekið að okkur hvaða golfviðburð sem er en þessi nýja bygging er ekki bara golfskáli heldur miklu meira og mun þjóna miklu stærra hlutverki,“ segir Gunnar Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri GM í viðtali við kylfing.is.

Klettur er glæsileg og ný bygging á frábærum stað á Hlíðavelli þar sem hægt er að njóta magnaðs útsýnis yfir golfvöllinn, út á sjóinn og fallegt umhverfið. Gunnar Ingi segir að stór draumur klúbbfélaga sé nú orðinn að veruleika en hann vonast til að þessi nýja aðstaða muni hafa mikil og góð áhrif á starfsemi klúbbsins. Efri hæð hússins er 650 fermetrar en þar er stór veitingasalur og veitingaþjónusta, golfverslun, snyrtingar og skrifstofur. Þá hæð er búið að taka í notkun en næsta skref er að taka neðri hæðina í notkun en þar verður mjög góð æfingaaðstaða fyrir afreksfólk klúbbsins, búningsherbergi og fleira.

Ekki bara golf
„Við viljum tengja Klett við fleira en golf því á svæðinu í Mosfellsbæ og Blikastaðanesinu, þar sem völlurinn stendur eru margir sem stunda hjólreiðar, göngu og hlaup og jafnvel kajakróður. Þetta verkefni kostar okkur umtalsverð fjármuni og við höfum reynt að gera þetta skynsamlega en það er ekkert launungarmál að við munum nýta bygginguna að hluta til útleigu fyrir aðra viðburði. Hún er hönnuð þannig að það getur verið fundur í sal en húsið samt ekki lokað fyrir aðra. Það er nýbúið að opna nýjan stað, Blik bistro grill í húsinu og það er strax mikil breyting fyrir okkur að hafa fjölbreyttan og góðan matseðil. Staðurinn er opinn öllum sem vilja koma og fá sér drykk,“ segir Gunnar Ingi.
Í meistaramótinu var mikil stemnning og þar kom nýi Klettur sterkur inn. Skor var sýnt á stafrænum skjám og það féll vel í kramið hjá kylfingum. Gríðarmiklar svalir eru á húsinu og á góðviðrisdögum er gaman að setjast úti og njóta útsýnis og spjalla, með drykk eða mat.

Örninn 2025
Örninn 2025

Björt framtíð
Það er ljóst að svona aðstaða kostar miklar fjárhæðir og framkvæmdastjórinn brosir þegar spurt er út í hvernig gangi að fjármagna svona glæsilega aðstöðu. „Við erum að vinna þetta í góðri samvinnu við Mosfellsbæ en einnig hafa mörg fyrirtæki komið okkur til hjálpar. Það hefur orðið fjölgun í klúbbnum en við vonum eftir að hún verði enn meiri til framtíðar litið, m.a. vegna þess að bæjarfélagið er að stækka og bæjarbúum að fjölga,“ segir Gunnar en hluti samnings klúbbsins við bæjarfélagið var að gefa eftir land við gamla klúbbhúsið en þar verða boðnar lóðir fyrir um nítján hús.
Ekki er langt síðan að Golfklúbburinn Kjölur og Bakkakot sameinuðust og framkvæmdastjórinn segir að sú sameining hafi gengið vel. Hlíðavöllur sé keppnisvöllur með frábæra aðstöðu en Bakkakot er aðgengilegra fyrir fjölskyldur og byrjendur og það eigi eftir að verða mikilvægur þáttur í vexti klúbbsins. Félagar í Golfklúbbi Mosfellsbæjar eru nú um 1100 og fer fjölgandi.

Vel heppnaður snúningur á vellinum
Við byggingu íþróttamiðstöðvarinnar Kletts var brautarröðun á Hlíðavelli breytt þannig að nú er braut sem áður var númer 13 fyrsta holan á vellinum. Gamla 4. braut er sú tíunda og teigurinn á henni er rétt við Klett og gamla 12. hola er lokabraut vallarins eftir snúninginn. Par 3 braut þar sem Klettur blasir við til hægri þegar maður slær inn á flötina. Gunnar segir að til standi að laga svæði sitt hvoru megin við flötina þar sem fólk geti sest niður í mótum, ekki síst stærri mótum og fylgst með kylfingum koma inn á lokaholuna. Breyting á röðun holna hafi komið afar vel út og kylfingar mjög ánægðir með hana.

„Við erum afar glöð með nýja tíma hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.  Hér er að byggjast upp ein glæsilegasta aðstaða á landinu, stór íþróttamiðstöð og skemmtilegir golfvellir. Við erum líka ánægð með nafnið á nýju íþróttamiðstöðinni okkar, Klettur. Það hefur alltaf talist gott að geta byggt framtíð sína á kletti,“ sagði Gunnar.

Gunnar Ingi framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar á 18. flötinni með Klett í baksýn.

Úsýnið úr veitingasalnum er frábært. Golfverslun að neðan.

Það er ekki amalegt að setjast út á svalir í góðu veðri.

Tíundi teigur er rétt við Klett. Fyrsti teigur aðeins ofar.

Séð niður 10. brautina sem var áður 4. hola.

Átjánda brautin er par 3 og var áður 12. hola vallarins. Hér er hún frá teig og séð frá Kletti.

Þeim leiddist ekki kylfingum úr Lionsklúbbnum Víðar sem voru að keppa á Hlíðavelli.

Á neðri hæðinni verður vegleg æfingaaðstaða fyrir afreksfólk og félaga klúbbsins.